143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að taka þessi mál upp hér á Alþingi, þau eru mjög mikilvæg. Þau eru auðvitað oft viðkvæm og oft afar erfið en þeim mun mikilvægara er að við ræðum þau reglulega og reynum að finna eins mikla sátt og samhljóm og hugsanlegt er hér á vettvangi löggjafans.

Ég vil þó aðeins byrja á að fara yfir nokkrar staðreyndir sem snúa að þessu máli. Það er auðvitað rétt, sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að gerðar voru ákveðnar athugasemdir af hálfu framkvæmdastjóra umdæmisskrifstofu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem kom hingað að frumkvæði íslenskra stjórnvalda. Það var óskað eftir því í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar að komið yrði hingað til lands til að yfirfara ákveðna þætti er tengdust þá aðallega ríkisfangslausum hælisleitendum.

Ég átti samtal við umræddan framkvæmdastjóra og það er ekki alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni — vel má vera að framkvæmdastjórinn hafi í einstaka viðtölum komið inn á þau mál sem hér eru nefnd en fyrst og síðast gerði umræddur framkvæmdastjóri ákveðnar athugasemdir við hluti er lúta að þeim tíma sem það tekur að afgreiða hælisleitendur á Íslandi.

Þegar ég átti fund með þessum aðilum frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Norður-Evrópu var það aðalumræðuefnið, hún lýsti yfir mjög miklum áhyggjum af því hversu langan tíma það tæki íslensk stjórnvöld, og hefði tekið á undanförnum árum, að afgreiða hælisumsóknir. Ég get ekki heldur tekið undir það með hv. þingmanni að mannréttindabrot hafi átt sér stað. Það er ekkert sem bendir til þess, engar niðurstöður hafa fallið um slíkt og það eru allir til þess bærir og mega að sjálfsögðu kæra rannsóknir eða aðgerðir lögreglu, telji þeir að á þeim hafi verið brotið. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að við getum fullyrt það, líkt og mér fannst hv. þingmaður gera.

Hv. þingmaður spurði mig, þ.e. ráðherra, hvað ég ætlaði að gera til að koma í veg fyrir að slík mannréttindabrot yrðu aftur viðhöfð í íslensku réttarkerfi. Það er ekkert sem bendir til þess að mannréttindabrot hafi átt sér stað þannig að við skulum fara varlega í að fullyrða um slíkt áður en það liggur fyrir. Öðru nær bendir allt til þess, og meðal annars í þessari úttekt sem vitnað var til hér, að Ísland fylgi eftir þeim samningum og sáttmálum sem Ísland er aðili að. Það er síðan stærra og annað mál að ef viðkomandi aðilar eru ósáttir við aðgerðir lögreglu, sem lögreglan hefur útskýrt sem nauðsynlegar aðgerðir til þess að kanna og rannsaka ákveðna glæpastarfsemi, þá geta menn gert athugasemdir við það. En þessi ráðherra sem hér stendur ætlar ekki, frekar en aðrir ráðherrar á undan hafa gert, að blanda sér í, hafa skoðanir á eða fella dóma um einstaka lögregluaðgerðir. Það er ekki hlutverk ráðherra.

En vegna þess að aðalumræðan, eins og kom svo réttilega fram hjá þessum fulltrúa Sameinuðu þjóðanna hér, hefur snúist um það hversu langan tíma það tekur — og það getur að ákveðnu leyti snúið að því að við sinnum eins vel og mögulegt er þeim hælisleitendum sem koma til Íslands — er biðtíminn orðinn allt of langur. Biðtíminn hjá okkur er orðinn þannig að við finnum fyrir því í kerfinu — sveitarfélagið Reykjanesbær ræður ekki lengur eitt og sér við að þjónusta þessa aðila og samkvæmt nýjustu tölum er kostnaðurinn sem íslenskt samfélag ber af þessari bið orðinn í kringum 600 milljónir kr. á ársgrundvelli. Við skulum hafa í huga stærðirnar sem þarna skipta máli. Það er jú vegna þess að að meðaltali eru einstaklingar að bíða hér vel yfir ár og jafnvel miklum mun lengur en það, en það er mjög eðlilegt ef við lítum til þess að fyrstu níu mánuði ársins 2012 voru dvalardagar hælisleitenda 19.592. Yfir sama tímabil í ár eru dagarnir orðnir 42.407 og að sjálfsögðu veldur það bæði þeim einstaklingum sem sækja hér um hæli vandræðum sem og íslenskum ríkissjóði.

Það var talað um það síðast í fjölmiðlum í dag, og kom fram hjá hv. þingmanni, að Ísland sinni þessu með eitthvað lakari hætti en nágrannaþjóðirnar, en það er ekkert sem bendir til þess. Þegar við yfirförum þær hælisumsóknir sem við fáum eru þær í mjög stórum og mörgum tilvikum umsóknir sem ekki falla undir hælisumsóknir, falla ekki undir þær alþjóðlegu skilgreiningar sem gerðar eru til hælisleitenda. Þegar við skoðum síðan hlutfall þeirra sem fá pólitískt hæli á Íslandi eða njóta þeirrar verndar sem það felur í sér þá er það með mjög svipuðum hætti og í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Virðulegur forseti. Ég hef átt fundi með kollegum mínum víða um heim, haft tækifæri til að funda um þessi mál með þeim og ekkert bendir til þess að Ísland haldi á þessu máli með lakari hætti en aðrar þjóðir. Það eina sem við þurfum að íhuga sérstaklega (Forseti hringir.) er sá tími sem hælisleitendur þurfa að bíða hér og sá kostnaður sem við berum af því.