143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:21]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa áhugaverðu umræðu hér í dag. Þessi mál hafa lengi verið í brennidepli og þá ekki síst málefni hælisleitenda sem flestir eru sammála um að þurfi að bíða allt of lengi eftir úrlausn sinna mála.

Í íslenskri stjórnsýslu eru ákveðnar málsmeðferðarreglur sem taka meðal annars til málshraða og eiga þær auðvitað að ná til hælisleitenda eins og annarra. Þegar kemur að meðferð á þessu fólki er að mörgu að hyggja. Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur verið lögfestur hér og þar eru hverjum einstaklingi tryggð ákveðin lágmarksmannréttindi. Okkur ber að virða þau en að sama skapi verðum við að skoða vel bakgrunn þeirra einstaklinga sem leita hælis hér og af hverju þeir koma hingað. Það er ekki sjálfgefið að allir geti fengið hæli hérlendis. Nauðsynlegt er að greina á milli hælisleitenda og svokallaðra kvótaflóttamanna sem hingað koma í boði stjórnvalda. Samtals hafa um 330 slíkir flóttamenn komið hingað til lands frá árinu 1996, flestir frá fyrrum ríkjum Júgóslavíu.

Fyrri stuttu samþykkti ríkisstjórnin í samræmi við tillögu flóttamannanefndar að taka á móti allt að 14 manns á þessu ári og því næsta. Hér er um að ræða konur sem taldar eru í hættu í Afganistan og síðan hinsegin fólk frá Íran og Afganistan en það er hópur sem oft er viðkvæmur og sætir miklum árásum og mannréttindabrotum. Flóttamannanefnd telur að hér séu góðar aðstæður til að taka á móti einstæðum mæðrum, auk þess sem réttindi hinsegin fólks eru vel varin hérlendis. Því ber að fagna þessum tillögum sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og utanríkisráðherra lögðu fram í ríkisstjórn.

Staðreyndin er sú að við höfum tekið vel á móti því flóttafólki sem hingað hefur komið enda hefur það í flestum tilvikum ílengst og orðið góðir borgarar þessa lands.

Ég vil hins vegar ítreka að lokum að við verðum að hraða málsmeðferð þegar kemur að hælisleitendum sem dvelja suður með sjó. Staðan er óásættanleg, bæði hvað okkur varðar og ekki síður þegar kemur að hælisleitendunum sjálfum.