143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í lok september voru 15 manns handteknir í aðgerðum lögreglunnar. Það hefur reynst mjög erfitt að finna út úr því út á hvað sú árás gekk nákvæmlega sem er eitt og sér áhyggjuefni. Í því samhengi velti ég því svolítið fyrir mér hvort hugsanlegt sé að allir hafi gerst brotlegir við lög. Gott og vel, ef við gefum okkur það er samt erfitt að ímynda sér það með hliðsjón af því umhverfi sem flóttamenn og hælisleitendur þurfa að búa í hér í dag.

Við heyrum líka fréttir af því að eftirlit sé með Fit í Reykjanesbæ. Þar er eftirlit með fólki í stofunni hjá því, eftirlit með einkalífi þess. Þar sem slíkt viðgengst hlýtur eitthvað að vera að, eitthvað mjög mikið. Svo má auðvitað minnast á það líka að þegar fólk kemur ólöglega inn í landið, þrátt fyrir alþjóðasamninga, er það handtekið fyrir að vera með fölsuð skilríki og það hlýtur að vera ómannúðlegt. Þetta er fólk sem er að flýja skelfilegar aðstæður og við handtökum það og sendum það jafnvel á Litla-Hraun fyrir það eitt að vera til hérna. Mannréttindi eru til þess að passa að slíkt gerist ekki. Mannréttindi eru réttindin sem við fáum fyrir það eitt að vera til. Mannréttindi eru til dæmis friðhelgi einkalífsins. Við fáum þau fyrir það eitt að vera til. Þau eru ekki háð því að við gerum eitthvað sérstakt til að verðskulda þau.

Þeir sem hafa búið erlendis, utan Evrópusambandsins eða Norðurlandanna, vita að jafnvel fullkomlega fín innflutningskerfi á fólki eru mjög erfið. Þau eru skilningslaus, þau skilja ekki aðstæður. Um leið og eitthvað er ekki eins og það á að vera í einhverjum kassa sem einhverjir embættismenn skilgreina er allt farið í klessu. Og þannig er það jafnvel ef maður er að flytja inn löglega, jafnvel ef maður kemur frá fínu landi eins og Íslandi inn í annað fínt land, eins og Kanada eða Bandaríkin, það er samt erfitt og hvað þá þegar kemur að flóttamönnum og hælisleitendum. Það er nokkuð sem við þurfum að laga.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra í sambandi við (Forseti hringir.) aðgerðir lögreglu, hvort það komi til greina að sérstök rannsókn verði gerð á vinnubrögðum lögreglu í því máli.