143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefnir um handtökur og þá sem eru án skilríkja, þ.e. ríkisfangslausir, þá er það rétt. Það er í flestum tilvikum sem íslensk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina brugðist þannig við. Það er eitt af því sem hefur verið til skoðunar í framhaldi af þeim ábendingum sem við höfum fengið og er klárlega eitthvað sem við þurfum að yfirfara og meta hvort unnið sé rétt. Það hafa ekki áður komið fram sérstakar ávirðingar um það en það kemur fram í skýrslunni frá framkvæmdastjóranum sem hér var fyrir nokkrum vikum að þetta sé ekki talið vera í samræmi við reglur. Þetta þarf því að rýna.

Síðan vil ég taka undir með öðrum þingmönnum vegna þess að ég held að í grunninn séum við sammála um að Ísland vill taka vel á móti flóttamönnum, taka vel á móti hælisleitendum og þeim sem þurfa á því að halda að njóta sérstakrar verndar. Ég minni hins vegar á að hælisleitendur njóta annarrar verndar og þess vegna verður að vinna það öðruvísi en dvalarleyfi almennt eða innkomu útlendinga hingað almennt. Það eru aðrar reglur sem gilda um hælisleitendur og þess vegna er einmitt svo mikilvægt að vinna það rétt. Og þegar við skoðum það sem málshefjandi bendir á, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, þau vandamál sem tengjast dvöl hælisleitenda hér, tengjast þau fyrst og síðast því hversu lengi þessir einstaklingar þurfa að bíða. Þegar talað er við þessa einstaklinga um það hvernig þeim líður með hlutina, hvernig þeim vegnar hér o.s.frv., tengjast flest þeirra svör því að biðin sé svo löng, taki svo á og sé svo erfið. Þess vegna er þetta svo mikilvægt. Við höfum verið að skoða sérstaklega reynslu Norðmanna sem hafa tekið upp svokallaða 48 klukkustunda reglu sem miðar að því að klára umsóknir innan þess tíma og geta sagt strax ákveðið nei eða hvort skoða þarf málið betur.

Hér kom upp umræða áðan um tölur sem sýna það að Ísland standi sig verr í móttöku hælisleitenda og samþykkt hælisleitenda en aðrar þjóðir, en það er ekki rétt. Þær tölur sem hafa verið í loftinu og ég sá t.d. á vefmiðlunum síðast í dag byggja ekki á því að taka út fyrir sviga þá staðreynd að Ísland er ekki fyrsti komustaður, þannig að tölurnar eru ekki samanburðarhæfar. (Forseti hringir.) Og þegar litið er til þeirra sem eru skoðaðir frekar hér á landi og annars staðar (Forseti hringir.) þá er Ísland með mjög sambærilegt hlutfall og þau lönd sem við berum okkur saman við.