143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

sveitarstjórnarlög.

152. mál
[14:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á III. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaganna sem kveður á um að eftirlitsnefnd í fjármálum sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála sé við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga skylt að undanskilja útgjöld, skuldir og skuldbindingar þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir umtalsvert meiri útgjöldum og/eða bera umtalsvert meiri skuldir en annars væri vegna eignarhluta þeirra í veitu- og orkufyrirtækjum.

Með þessu bráðabirgðaákvæði var á sínum tíma komið til móts við þau sveitarfélög sem ella væri sniðinn þröngur stakkur vegna skuldastöðu veitu- og orkufyrirtækja sem þau eiga eignarhlut í. Þingheimur þekkir þessa umræðu í kjölfar þeirra breytinga sem urðu hér í efnahagsumhverfinu. Ákvæðið er hins vegar orðað með það fortakslausum hætti að ekki hefur verið talið heimilt að taka reikningsskil veitu- og orkufyrirtækja inn í útreikninga á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga þó að það yrði þeim hagfellt, svo sem ef viðkomandi fyrirtæki er fjárhagslega stöndugt.

Því er í frumvarpi þessu lögð til sú litla tæknilega breyting á þessu ákvæði að sveitarfélagi verði valkvætt hvort reikningsskil vegna eignarhluta í veitu- og orkufyrirtækjum verði undanskilin við mat á afkomu og fjárhagsstöðu þess, enda uppfylli það skilyrði ákvæðisins að öllu öðru leyti.

Orðalag ákvæðisins hefur jafnframt verið endurskoðað með það að markmiði að skýra efni þess betur og er því nú sérstaklega tekið fram að séu útgjöld, skuldir og skuldbindingar undanskildar skuli jafnframt undanskilja þær tekjur og eignir sem af eignarhlutum hljótast. Það skal tekið fram að frumvarpið felur ekki í sér rýmkun á þeim tíma sem beita má þessu bráðabirgðaákvæði sem er í allt að tíu ár frá gildistöku sveitarstjórnarlaganna, 1. janúar 2012.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.