143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurningin var meira: Af hverju núna? Er ekki heildarfrumvarp væntanlegt mjög fljótlega? Við erum komin inn í mitt veiðitímabilið af því að við erum komin fram í miðjan nóvember, fiskveiðiárið byrjar í september og lögin enn ekki samþykkt. Ég hefði viljað vita betur af hverju ekki var bara beðið eftir þeirri heildarendurskoðun þar sem þetta félli inn í nýjar reglur af því að það er tekið sérstaklega fram að þetta sé ekki fordæmisgefandi.

Í öðru lagi kemur mér á óvart að talað sé um að þeir sem nýta rækjuna í dag geri það með óhagkvæmum hætti og að það verði að stöðva. Ég held að það séu afar kaldar kveðjur, a.m.k. á Ísafjörð þar sem komin er verulega öflug rækjuvinnsla sem þessi lög munu setja í hættu.

Ég ætla aðeins að spyrja betur af því að það er vitnað í sáttanefndina. Eitt af því sem kemur fram í áliti meiri hluta þeirra sem þar sátu er að jafnræðis og atvinnufrelsis skuli gætt við úthlutum veiðiheimilda. Þar er meðal annars vitnað í álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Þá spyr ég ráðherra: Telur hann að eftir það tímabil sem á undan er gengið, þar sem vitað var að þeir sem voru handhafar aflahlutdeilda nýttu hana ekki og við fáum tækifæri til að endurúthluta þeim, að rétt sé að gera það með þessum hætti miðað við sáttanefndina?

Í öðru lagi kemur þar líka fram mjög sterk krafa um að byggðasjónarmið séu látin ráða. Kom til álita að þessu yrði úthlutað á ákveðin svæði til að tryggja að þetta yrði nýtt þar? Það er talað um það í sáttanefndinni að menn eigi að gæta byggðasjónarmiða og tryggja atvinnu um landið allt.

Ég hef líka velt fyrir mér af hverju ráðherra notar ekki markaðslögmálið og fer hreinlega með þessar aflaheimildir í gegnum tilboðsmarkað. Ég talaði áðan um opinberan markað þar sem boðnar eru upp heimildir, ekki þannig að það sé uppboð og hæstbjóðandi fái í hvert skipti heldur (Forseti hringir.) tilboðsmarkaður sem er opinn í ákveðinn tíma. Sú hugmynd er útfærð í sáttanefndartillögunum.

Mig langar að vita meira um þessi ákvæði.