143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Gagnstætt því sem mátti kannski skilja í ræðu hæstv. atvinnuvegaráðherra að hér væri ekki um að ræða fordæmisgefandi aðgerð óttast ég að svo verði. Ég óttast að þarna séu gefin ákveðin skýr skilaboð um hvernig eigi að fara með jafnvel nýjar tegundir. Raunar hefur það komið fram í fjölmiðlum að hæstv. ráðherra telji að setja eigi aflahlutdeild með gömlu reglunum um makrílinn.

Ég ræddi það í andsvari áðan að mér þætti tímasetningin svolítið skrýtin, sérstaklega með tilliti til þess ef hér væri verið að fara út í nýjar aðferðir varðandi heildarendurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Við erum komin fram í miðjan nóvember og tæpur mánuður til jóla, það má búast við að þetta verði afgreitt jafnvel í febrúar. Spurningin er: Hvað er unnið við þessa breytingu?

Ég geri líka athugasemdir við það ef sú leið er farin að skipta aflahlutdeildum 70:30 því þá eru menn að skipta út aflahlutdeildum á skip sem höfðu þessar heimildir áður fyrir nokkrum árum og nýttu þær ekki í mörgum tilfellum. Mig langar að spyrja ráðherra: Veit hann hve stór hluti nýtti ekki heimildirnar heldur framseldi á aðra eða notaði hlutinn í skiptum?

Þá finnst mér vera tveir kostir í raunveruleikanum ef við erum að tala um að 70% aflaheimilda í rækju fari þá leið. Annaðhvort verði rækjan ekki veidd vegna þess að viðkomandi aðilar liggja á hlutnum og nota hann ekki, skipti á tegundum og veiði hann ekki. Hvernig nýtist það atvinnulífinu og þeim fyrirtækjum sem hafa verið að hasla sér völl að nýju í þessari grein? Ef ekki, munu þeir framselja aflahlutdeildina og leggja á þá útgerð sem hæstv. ráðherra sagði að væri ekki með nægilega arðsemi nú þegar og hefði ekki efni á að borga veiðileyfagjald. Þá erum við að leggja á þessa grein veiðileyfagjald frá stóru útgerðinni eða útgerðinni sem hafði þessar heimildir áður. Þannig hefur það verið. (JónG: Það eru ekki stórútgerðir.) Nei, fyrirgefðu, það er rétt, hv. þingmaður Jón Gunnarsson leiðréttir mig, það hafa ekki verið stórútgerðir, það er kannski orðið gildishlaðið. En ég er fyrst og fremst að vekja athygli á því að það voru útgerðir sem höfðu heimildirnar en nýttu þær ekki heldur notuðu þær í skiptum, eða framseldu þannig að aðrir gætu nýtt sér þær.

Þá erum við að tala um að þarna borgi þeir aðilar sem núna eru að nýta rækjuna, þessi 50%, aðilar sem eru nýir og hafa bara haft aflaheimildir síðastliðin ár, hafa verið að veiða síðastliðin þrjú ár og sett á stofn ný rækjuvinnslufyrirtæki eins og Kampa á Ísafirði svo ég taki dæmi, að vísu fær það fyrirtæki úr báðum púllíunum sýnist mér. Þá er spurningin: Eiga þeir aðilar að fara að borga fyrir það hjá öðrum en ríkinu að fá leyfi til þess að nýta þennan stofn? Það finnst mér mjög óeðlilegt.

Hér hefur verið vitnað töluvert í sáttanefndina og ef við skoðum það var einmitt eitt af því sem var mikil sátt um í þeirri nefnd að reyna að stöðva þetta framsal og fénýtingu einstakra útgerðarfyrirtækja á aflaheimildum sínum. Þess vegna var meiri hluti í þeirri nefnd fyrir því að afli sem væri falur eða þurfti að endurseljast og ekki væri notaður til að skipta í tegundum eða til þess að veiða og færa milli skipa innan eigin útgerðar, kæmi inn á opinberan markað þannig að verðmyndun á honum yrði eðlileg en ekki frá einstökum skipum í gegnum LÍÚ-markaði yfir til annarra skipa.

Þetta eru prinsippmál sem varða stóru línurnar í breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og er forvitnilegt að vita hvaða áhrif ákvörðun eins og sú sem lögð er til í þessu frumvarpi mun hafa á heildarendurskoðun um stjórn fiskveiða.

Það er athyglisvert af því það er vitnað svo oft í þessa sáttanefnd — ég kallaði hana svo sem aldrei sáttanefnd heldur var þetta starfshópur sem vann skýrslu um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða, dró fram öll álitamál, gerði greiningar og skýrslur, valkostir voru skoðaðir og dregin fram sjónarmið meiri hluta hópsins. Í honum voru yfir 20 manns, m.a. frá öllum pólitískum flokkum sem þá áttu fulltrúa á þingi.

Það er mikilvægt að taka fram að í starfshópnum voru nú ekki uppi meiri byltingarhugmyndir en það að talað var um að styðjast áfram við aflamarkskerfið, sá hópur vildi það. Þó að við hefðum lagt til að fara ætti svokallaða fyrningarleið, eða innköllun og endurúthlutun, varð sú leið undir í þeirri umræðu.

Í skýrslunni er líka sagt að það eigi að vera hámarkshandhöfn, eins og það heitir á svo fallegu máli, þ.e. hámarksheimild á því sem hvert og eitt fyrirtæki má nýta. Í þorski var þetta einhvers staðar í kringum 12%, 10 eða 12%. Hver er hún í rækjunni? Eru reglur þar? Þar var líka að finna eitt af ákvæðunum sem skipta gríðarlega miklu máli og hafa verið mikið í umræðunni en það var að gera úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og setja skýrar reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja. Þar var talað um að sækja viðmið til hlutabréfamarkaðarins vegna þess að það er ljóst að fyrirtækin eiga hér hvert í öðru og geta þar af leiðandi orðið gríðarlega stór á markaðnum jafnvel þótt það sé í lögunum að þau eigi ekki að hafa aflaheimildir yfir ákveðnu marki.

Ef ég vitna áfram í þessa skýrslu sem ég er með hjá mér, á bls. 12, þá tekur meiri hlutinn fram að þrengja beri heimildir til framsals aflaheimilda en leyft verði að skipta að jöfnu á aflaheimildum og að færa aflaheimildir milli skipa innan sömu útgerðar eins og ég var að segja áðan. Viðskipti verði leyfð með aflaheimildir. Þau skuli fara fram í gegnum opinberan markað og gjald af nýtingu á auðlindum sjávar renni í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Af hverju förum við ekki þá leið hér? Það er að koma nýr stofn. Það er ekki hægt að segja að þessi fyrirtæki hafi byggt sína afkomu á rækjunni á undanförnum árum ef við lítum aftur í tímann. Það hefði verið að mörgu leyti eðlilegra að taka þriggja ára reynsluna og nýta hana og setja svo hluta bara inn á tilboðsmarkað.

Það er full ástæða til að undirstrika það sem meiri hluti hópsins taldi að yrði að gera þegar gæðum væri úthlutað, eins og makríllinn er að sjálfsögðu orðinn, að menn yrðu að gæta jafnræðis. Við þurfum auðvitað að skilgreina hvað jafnræði þýðir og hvernig hægt er að tryggja það. Umræður voru um að það þyrfti að vera einhver forgangsheimild fyrir þá sem hefðu kannski skapað auðlindina með því að vera fyrstir að nýta sér hana, en eftir sem áður var mikill vilji hjá meiri hluta hópsins fyrir því að reyna að gæta jafnræðis. Það þýðir í reynd að það verði tilboðs- eða útboðsmarkaður á þessum nýju heimildum.

Ég bið hæstv. sjávarútvegsráðherra að segja mér, ef menn ætla að fylgja þeirri línu sem gefin var í þessum hópi, hvort það sé ekki öruggt að þetta verði inni. Það er tekið fram í skýrslunni, til að gæta alls réttlætis, að eðlilega aðlögun að breytingum geti þurft með tilliti til þess sem hefur tíðkast áður. Eins og ég sagði áðan voru líka mjög sterk sjónarmið í hópnum á þeim tíma að gæta byggðasjónarmiða og gæta þess að enginn gæti farið í burtu af staðnum með stórar kvótaheimildir og skilið eftir ótalinn fjölda heimila í rúst vegna þess að kvótinn hefði flust í burtu.

Því miður á ég ekki sæti í atvinnuveganefnd og get ekki fylgt þessu eftir þar, en ég treysti á að þetta fái vandaða umfjöllun og menn ræði svolítið prinsippin í þessu og það komi fram hvort hæstv. ráðherra sé að gefa ákveðin skilaboð. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt segir hann að þetta sé ekki fordæmisgefandi. En ef þetta er fordæmisgefandi hef ég áhyggjur af nýja frumvarpinu sem hæstv. ráðherra er að láta vinna að. Hugsum bara um makrílinn sem er jafnvel að tvöfaldast á til þess að gera skömmum tíma og að aflaheimildir fari á mjög takmarkaðan fjölda fyrirtækja og eigi bara þar með að afhendast þeim án þess að neinar aðrar kvaðir fylgi. Stundum hefur þetta verið þannig eins og var raunar þegar menn fengu rækjuna að þeir urðu að afsala sér veiðiréttindum í öðrum tegundum af því þeir fengu forgang að rækjunni. Það er ekkert slíkt skilyrði í þessu frumvarpi. En ef menn ætla að fara að úthluta jafnmiklum gæðum á sama tíma og þorskstofninn er að aukast verulega og þau renni til þeirra sem eru með þorskinn, líst mér ekki á það. Þá sé ég ekki að hér verði brotið upp það kerfi sem hefur verið mikil óeining um í samfélaginu og mjög skiptar skoðanir um. Þá verður lengra í sáttina en ég hafði vonað.

Ég vil undirstrika að hér erum við með mikilvægustu atvinnugrein landsins sem er sjávarútvegur. Við erum með sjávarútveg sem er gríðarlega vel rekinn og skilar miklum arði. Við viljum að útgerðin sé hagkvæm og vinnslan og að menn hafi góða afkomu. En við viljum líka að skilað verði ákveðinni hlutdeild til samfélagsins. Við viljum líka að opnað sé á að þetta séu ekki ævarandi réttindi tiltekins hóps sem miðast við ákveðinn árafjölda á ákveðnum tíma. Sá vilji hefur endurspeglast í allri þessari vinnu frá árinu 2000. Ég treysti því að hæstv. ráðherra snúi nú ekki til baka þannig að við stígum skref aftur á bak í því að opna kerfið. Við verðum að gæta allra þessara grundvallaratriða en auka um leið jafnræðið varðandi heimildir til að veiða og nýta sjávarauðlindina.