143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér gefur að líta frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða um hlutdeildarsetningu úthafsrækju og rækju á miðunum við Snæfellsnes, sem hæstv. ráðherra hefur fylgt úr hlaði. Frumvarpið byggir á því að þær veiðar sem hafa verið frjálsar síðustu þrjú fiskveiðiár verða settar inn í kerfið aftur með kvóta í hlutföllunum 70% til þeirra sem höfðu áður aflaheimildir og 30% til þeirra sem hafa stundað veiðar á liðnum þremur árum.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað svo að margar hliðar eru á málinu eins og svo oft áður þegar við ræðum mál sem koma inn til þings. Ég ætla ekki hér og nú að úttala mig um málið og segja af eða á en nú við 1. umr. ætla ég samt sem áður að leggja orð í belg. Ég sit í hv. atvinnuveganefnd og þangað kemur frumvarpið.

Það fyrsta sem ég vildi segja er að ég er í rauninni afar undrandi á því að þetta frumvarp skuli koma fram núna þegar langt er liðið á nóvembermánuð og þingið á eftir að fara yfir málið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það tekur töluvert langan tíma þannig að mér dettur ekki í hug eitt augnablik að halda að málið klárist fyrir jól. Þing kemur aftur saman upp úr miðjum janúar, þá hefjast þingstörf aftur og spurning hvort það verður kominn febrúar eða mars þegar málið verður tilbúið. Ég spyr mig að því hver tilgangurinn sé með því að leggja frumvarpið fram núna vegna þess að þá verður hálft fiskveiðiárið liðið. Eins og allir vita hefst fiskveiðiárið 1. september og þess vegna var spurning hv. þm. Guðbjarts Hannessyni áðan af hverju þetta beið ekki boðaðrar heildarendurskoðunar fiskveiðilaganna, eins og hæstv. ráðherra hefur boðað og sú ríkisstjórn sem hann situr í, alveg réttmæt.

Mér finnst ekki hafa komið fram nægjanleg rök eða svör við þeirri spurningu. Ég tek líka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að ekki sé hægt að lesa rökin fyrir prósentutölunni eða rökin fyrir frumvarpinu út úr frumvarpinu eða greinargerðinni sem því fylgir.

Virðulegi forseti. Ég hef átt þess kost að heimsækja rækjuvinnsluna Kampa á Ísafirði og hlusta á rökstuðning þeirra manna og kynningu á starfseminni. Ég þekki til rækjuveiða og rækjuvinnslu í heimabæ mínum og á nokkrum öðrum stöðum á landinu þar sem rækja er mikið unnin. Maður verður að skoða hlutina frá sjónarhorni allra aðila til þess að mynda sér heildarskoðun á frumvarpinu sem hér er lagt fram.

Ég átti þess ekki kost að mæta á fund atvinnuveganefndar þegar fulltrúar frá rækjuiðnaðinum komu þangað. Þeir aðilar sem ég er að ræða um mættu og ég sá útskýringar þeirra nokkrum dögum síðar. Ég veit um aðra gesti sem voru á fundinum sem ég gat ekki hlustað á og ég bíð eftir og mun óska eftir að þeir komi til nefndarinnar og flytji mál sitt þar. En það sem hæstv. ráðherra sagði er alveg rétt. Ef ég man rétt átti ég utandagskrárumræðu við fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, þegar veiðarnar voru gerða frjálsar um að ólympískar veiðar mundu hefjast og um það hvenær búið yrði að veiða það magn sem Hafró ráðlagði og hvenær flaggið yrði þá reist og sett niður og sagt: Veiðunum er lokið. Ég óttaðist að kappveiðar mundu hefjast og menn mundu ganga mjög hratt fram í upphafi kvótaárs og sá kvóti sem þá var útgefinn mundi jafnvel ekki duga nema hálft árið. Átti þá að loka rækjuverksmiðjum og segja upp fólki eða hvað átti að gera?

Við höfum öðlast reynslu af þessu sem sýnir að nýir aðilar hafa komið inn til veiða þegar þeir hafa séð tækifæri til að koma í þær veiðar án þess að kaupa eða leigja kvótann dýrum dómi. Þannig þekki ég til útgerðar til dæmis í mínum heimabæ, þær byggjast alfarið á því. Við getum því sagt að þessar ólympísku veiðar, sem svo hafa verið kallaðar, hafi þann ókost að menn geta rifið upp það aflamark sem má veiða á örskömmum tíma og hætt svo. Það er dálítið í takt við norska fiskveiðistjórnarkerfið þar sem menn veiða mjög hratt, slíta allt saman upp og síðan er bara bundið og lokað. Menn vestur á fjörðum reka í dag, að mér skilst, stærstu rækjuverksmiðju landsins og vinna í kringum 3.000 tonn, auðvitað blandað innfluttri rækju, tvífrystri og eins veiddri hér á Íslandsmiðum. Þeir hafa sýnt okkur að fimm fyrirtæki eru þar stærst, eru með um 10.000 tonn, Dögun á Sauðárkróki með 2.600 tonn, Hólmadrangur á Hólmavík um 1.800 tonn, FISK í Grundarfirði um 1.500 tonn og Rammi á Siglufirði 1.000 tonn. Samtals gera þetta um 10.000 tonn. Kampi er í dag stærsti rækjuframleiðandi á Íslandi en ég árétta að það er sambland af innfluttri rækju og öðru.

Hlutfall Kampa í heildarframleiðslu á rækju hefur aukist frá árinu 2008 úr 14,2% í 30,2% og tekið af úthafsrækju veiddri á Íslandsmiðum hefur þetta farið frá fiskveiðiárinu 2007/2008 úr 867 tonnum í 2.548 tonn. Það er mikill munur. Án þess að ég ætli, ég vil taka það skýrt fram enn einu sinni, að leggja dóm á öll þau atriði sem hér eru lögð fyrir mig, og ég ítreka að mig vantar að heyra rökin hinum megin frá og útskýringar þeirra, ætla ég samt sem áður að fjalla aðeins um það sem þarna kom fram vegna þess að það eru staðreyndir málsins. Þar kom fram að á síðasta ári sem rækja var í kvóta, þ.e. 2009/2010, veiddu handhafar kvótans, eins og þeir kalla þá, eða þeir sem hafa úthlutaða aflahlutdeild aðeins brot af þeim rúmu 7.000 tonnum sem þá voru veidd. Þeir segja líka að þá — og ég hef áfram fyrirvarann — hafi gengið illa að fá leigðar aflaheimildir í rækju og leggja þurfti skipum tímabundið.

Svo spyrja þeir, með leyfi forseta, — og þetta eru allt saman gögn sem voru sýnd á fundi atvinnuveganefndar — hvaða rök og heilbrigð skynsemi felist í því að úthluta fyrrverandi kvótahöfum kvóta í rækju sem þeir hafa ekki veitt í mörg ár, hvort heldur þegar hún var kvótasett eða þegar veiðar voru frjálsar, því að þeir höfðu alla möguleika á að verja aflaheimildir sínar með því að veiða.

Þetta er alveg réttmæt spurning. Síðan segja þeir að hætt sé við að sæki í fyrra horf að nýju ef úthafsrækjukvóta verður úthlutað til fyrrverandi handhafa.

Á glærunum sem okkur voru sýndar kom fram að þeir höfðu unnið upp úthlutað aflamark þeirra sem fengu meira en 2% árin 2009/2010. Það er ansi merkilegt að skoða þá töflu. Ég ætla hins vegar ekki að gera hana að umtalsefni hér.

Á fundinum sem okkur var boðið á með þeim á Ísafirði ásamt hv. þm. Árna Páli Árnasyni og Guðbjarti Hannessyni lýstu þeir rekstri sínum og áhyggjum og sýndu okkur fram á að störf mundu tapast. Það er þannig að Kampi hafði sagt upp fólki og þeir nefndu að allt að 100 manns gætu misst vinnuna, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat um áðan.

Virðulegi forseti. Ég vildi leggja þetta fram í umræðunni hér þegar verið er að stíga skref til baka, eins og komið hefur fram.

Þetta kemur líka fram í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Veiðisókn í úthafsrækju hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Samkvæmt gögnum frá Fiskistofu hefur tæpur helmingur aflamagns í úthafsrækju á síðustu þremur árum verið veiddur af skipum útgerða sem ekki ráða yfir skráðri aflahlutdeild, en fjöldi báta, sem stundað hafa veiðarnar, hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum eins og sjá má á þessari töflu:“

Í töflunni kemur fram að fiskveiðiárið 2010/2011 var fjöldi fiskiskipa 27. Árið eftir, 2011/2012, voru þau 35 og 2012/2013, þ.e. á síðasta fiskveiðiári, voru það 50 skip.

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það sem mér heyrðist hæstv. ráðherra segja áðan að auðvitað er það þannig að við þurfum að gæta að sem mestri hagkvæmni við veiðar, alveg sama hvort það er rækja eða aðrar tegundir, rétt eins og í öðrum atvinnurekstri. Menn fara ekkert að gera út tvo togara til að veiða bolfisksafla í sama fyrirtæki ef menn geta tekið það á einn togara. Það eru náttúrlega staðreyndir málsins og í öllum atvinnurekstri þurfa menn að gera hlutina á sem hagkvæmastan hátt, það er alveg sama hvort atvinnuveganefnd er í heimsókn hjá Mjólkursamsölunni eða annars staðar að hlusta á hvernig þar hefur verið hagrætt og þjappað saman en í raun og veru hafi komið út úr því stærra og öflugra fyrirtæki. Þetta er alveg rétt hvað það varðar. Mig vantar svör við til þess að ég geti myndað mér skoðun á þessu máli, af eða á, við því hvort óhagkvæmt þjóðhagslega séð sé að 50 fiskiskip geti sótt rækjuaflann á Íslandsmiðum, eða eiga þau kannski bara að vera 10? Eða 35, eða hvað má segja? Svo blandast auðvitað inn í það aðrir þættir, landfræðilegir þættir og atvinnulegir, staðbundnir þættir vegna þess að við vitum að rækja er mest unnin úti á landi

Þetta voru nokkur atriði sem ég vildi nefna í 1. umr. um málið. Eins og ég sagði á ég á sæti í atvinnuveganefnd og mér sýnist atvinnuveganefnd hafa fengið mál til sín í vinnslu sem krefst töluverðrar fundarsetu og gestakomu vegna þess að það er sannarlega svo, eins og ég hef margsagt í þessari ræðu, að við þurfum að fá öll sjónarmiðin fram til að vega og meta.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra er á mælendaskrá á eftir mér og spyr ég hann að lokum tveggja spurninga. Annars vegar er það spurningin hvernig þessi prósenta 70:30 er fengin? Af hverju ekki 60:40? Svo ítreka ég spurningu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar: Af hverju beið þetta ekki eftir heildarendurskoðun og kom þá með þeim pakka? Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér í því að ef þingið getur ekki klárað málið fyrr en í febrúar eða mars, skulum við segja, er of seint af stað farið vegna þess að þá verður hálft fiskveiðiár búið? Eða á gildistakan kannski, í staðinn fyrir það sem stendur í frumvarpinu um að lögin öðlist þegar gildi, að vera 1. september næstkomandi? Þetta eru spurningar mínar til hæstv. ráðherra.