143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum nú er eitt af þeim vandamálum sem sköpuð voru í tíð síðustu ríkisstjórnar um hvernig farið var með, og það allfrjálslega, fiskveiðistjórnarmál okkar. Það þarf svo sem ekki langa ræðu til að rifja upp þá atlögu sem ítrekað var gerð að kerfinu og hvert það leiddi okkur, þ.e. í strand. Hér sitjum við uppi með vandamál sem var bent á við umræðu um málið þegar rækjuveiðar voru gefnar frjálsar að væri fyrirsjáanlegt — algerlega fyrirsjáanlegt. Það er auðvitað okkar vandi að leysa úr því í dag. Þetta hefur leitt til of mikillar sóknar. Þetta hefur leitt til of mikillar veiði á of skömmum tíma. Þetta hefur leitt til offjárfestingar. Þær upplýsingar fékk ég í haust að talið væri að bara nýju fyrirtækin hefðu fjárfest í veiðarfærum fyrir sennilega á þriðja hundrað milljóna kr. til þess að fara á rækjuveiðar, veiðarfæri sem var algjör óþarfi að eyða peningum í vegna þess að veiðarfærin sem gátu höndlað verkefnið voru til staðar.

Þetta hefur líka leitt til þess að veiðin hefur ekki verið stunduð með skipulögðum hætti þannig að við höfum misst af þeim tíma þegar markaður fyrir íslenska rækju er bestur og afurðaverðið hæst, þ.e. sumartímanum. Kapphlaupið hefur verið svo mikið að við höfum ekki haft innlent hráefni til að vinna úr þegar kemur að verðmætasta tímanum. Allt eru þetta klassísk vandamál sem fylgja ólympískum veiðum, fyrirséð og var bent á ítrekað við umræðu við þessa ákvarðanatöku.

Hvernig eigum við að ná utan um vandamálið í dag þegar við verðum að bregðast við? Hverjir eiga réttinn á aflaheimildum í rækju? Eru það þeir sem höfðu áður aflaheimildir í rækju? Vissulega sóttu þeir ekki allir aflaheimildir sínar með hefðbundnum veiðum vegna þess að afurðaverðið var svo lágt að það borgaði sig ekki, eins og við vitum. Þó voru fyrirtæki sem héldu áfram eins og á Siglufirði, í heimabæ hv. þm. Kristjáns L. Möllers, þar sem fyrirtæki skuldsetti sig fyrir einhverja milljarða króna við kaup á aflaheimildum. Svo voru veiðarnar gefnar frjálsar, en enginn afskrifaði skuldirnar hjá fyrirtækinu. (Gripið fram í: Ertu viss um það?) Hvaða rétt á það fyrirtæki í dag á að fá aflaheimildirnar til baka eða stórir veðhafar sem höfðu lánað til kaupa á aflaheimildum eins og Byggðastofnun sem á 12% af rækjuheimildunum í dag? Hver er réttur þessara aðila borið saman við þá sem hófu veiðar við þessar aðstæður? Það er það sem er verið að reyna að leysa hér. Það er verið að reyna að fara bil beggja. Á þetta að vera 70:30? Á þetta að vera 80:20? Á þetta að vera 60:40? Það er verið að reyna að finna einhverja málamiðlun.

Hræðsluáróðurinn, sem ég vil kalla, hefur heyrst vestan af fjörðum um að á annað hundrað manns missi vinnuna verði þessar breytingar að lögum. Það er ofsögum sagt. Það eru alla vega mínar upplýsingar.

Ég held ég fari með rétt mál að á Siglufirði, þar sem hefur verið unnin mest rækja á þeim árum sem við erum að tala um, starfi um 40 manns við rækjuvinnslu. Ég veit ekki hvort þeir gera þetta með svo óhagkvæmum hætti fyrir vestan að þeir þurfi 100 manns til að vinna svipað magn. Þessi jafna gengur ekkert upp. Það fyrirtæki er reyndar einnig í fiskvinnslu, en það verður auðvitað verkefni atvinnuveganefndar að skoða og reyna að leiða þennan ágreining og þessi vandamál í jörð.

Það getur ekki verið neitt réttlæti fólgið í því að þegar fyrirtæki hafa spilað samkvæmt lögum og reglum um margra ára skeið, verið í veiðum og vinnslu, skapað atvinnu og verðmæti, að þau séu bara svipt öllum heimildum og skilin eftir með skuldirnar. Við hljótum að vera sammála um það.

Þessi 30:70%-leið mun vissulega fela í sér ákveðin vandamál einnig. Hún verður auðvitað til þess að þau fyrirtæki sem hafa tekið þátt í þessum veiðum á undanförnum tveimur árum fá núna 30% metið af aflareynslu sinni; þau munu ekki fá nægilegan kvóta til að geta haldið áfram. Þau sem fá 70% miðað við það sem þau áttu munu áfram sitja uppi með skuldir, kannski langt umfram aflaheimildirnar sem þau fá til baka.

Auðvitað snýst þetta allt um að verðmætin í rækjunni fá verðmiða, sem betur fer eftir að hafa gengið illa í mörg ár. Loksins skapast þær aðstæður að meira fæst fyrir þessi verðmæti; þau fá verðmiða. Ég held að það verði hægt að leysa vandamálin fyrir vestan ef menn leggjast á eitt um að þeir hafi aðgang að aflaheimildum. Ég nefndi hér áðan kvóta Byggðastofnunar, þær aflaheimildir sem Byggðastofnun á upp á 12%. Það eru náttúrlega fjölmörg fyrirtæki sem eiga minni kvóta. Ég hef heyrt það á útgerðarmönnum að þeir séu tilbúnir að hjálpa þeim, en þeir verða auðvitað að spila eftir sömu leikreglum og aðrir. Það er ekkert frítt í þessu kerfi í dag, það er ekki þannig. Við munum auðvitað reyna að beita okkur fyrir því í meðförum atvinnuveganefndar.

Mig langar aðeins til þess að koma inn á makrílinn af því hann hefur verið ræddur hér, virðulegi forseti. Hvernig höndluðu menn makrílinn í síðustu ríkisstjórn? — Koma svo hingað eins og hv. formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, í gær og fara að velta fyrir sér leiguleið og uppboðsmarkaði og slíku. Af hverju var sú leið ekki farin af hálfu síðustu ríkisstjórnar þegar tilefni var til ef menn vildu fara þá leið? Ég man eftir að ég svaraði blaðamanni á þeim tíma þeirri spurningu hvort ég teldi eðlilegt að makríl, þetta var í kringum 2010 sennilega, yrði bara úthlutað á þau skip sem dældu upp makríl í bræðslu. Umræðan var öll mjög gagnrýnin eins og þið munið, að verðmætasköpunin væri ekki nægilega mikil, við værum að sóa verðmætum með því að dæla þessu öllu uppi í bræðslu af því menn væru að ná sér í veiðireynslu. Alveg dæmigerð afleiðing ólympískrar veiði. Hvað gerði þáverandi ríkisstjórn? Af hverju fór ríkisstjórnin sem þá var við völd ekki í það að selja þetta, setja þetta á opinberan markað, allar þessar leiðir? Ég man að ég svaraði því þannig að mér fyndist þau lögmál alls ekki gilda um úthlutun á þeim aflaheimildum sem giltu um veiðar í stofnum þar sem fjárfesting og veiðireynsla væri til staðar. Slíkt var ekki til staðar á þeim tíma. En núna, tæpum fjórum árum seinna, koma menn úr þessum sömu flokkum og fara að tala um þessa leið. Ég vonast til þess að við náum því á þessu þingi í vetur að hafa umræðuna málefnalegri en verið hefur.

Öll vitum við að um leið og þessu var breytt og menn fengu aflaheimildirnar til þess að vinna úr fóru að skapast hér verðmæti. Það var auðvitað stóri lottóvinningur þjóðarinnar á síðasta kjörtímabili, öll þau gríðarlegu verðmæti sem makríllinn hefur skapað okkur, nokkuð sem var ekki fyrirséð.

Svo er það náttúrlega annað að öll umræðan snýst um auðlindagjald. Það er ákveðin þverpólitísk sátt um að við ætlum að innheimta auðlindagjald, eitthvert gjald af útgerðinni fyrir aðgang að þessari sameiginlegu auðlind. Við förum bara aðra leiðina, við förum ekki báðar leiðirnar. Við förum ekki á uppboðsmarkað eða seljum veiðiheimildir á sama tíma og við ætlum að innheimta auðlindagjald eftir einhverri ákveðinni leið — við förum aðra hvora leiðina. Það er almenn sátt um það og verið að vinna í því núna að reyna að finna út hvert þetta auðlindagjald á að vera.

Sá ofurhagnaður sem gjarnan er talað um í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum þremur, fjórum árum varð fyrst og fremst hjá þeim fyrirtækjum sem hafa verið í makríl. Ég man ekki nákvæmlega hvað uppsjávarfyrirtækin greiða hátt hlutfall af því veiðigjaldi sem verið er að innheimta, ætli það sé ekki um 75%, ég held að ég muni það rétt. Það er náttúrlega fyrst og fremst þar sem stóri hagnaðurinn hefur verið. Við bárum þó gæfu til þess í þinginu í sumar að breyta þeim álagningarstuðlum sem var farið eftir vegna þess að það vitlaust gefið, það var kolrangt gefið. Við vitum það og það vita allir sem hafa skoðað þetta mál að lítil og meðalstór fyrirtæki, jafnvel stærri fyrirtæki sem eingöngu eru í bolfiski, réðu ekkert við þá álagningu sem var á borðinu en þau fyrirtæki sem fengu aðgang að makrílnum réðu við hana. Svo situr maður undir þeim málflutningi margra hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar í dag að við séum einhverjir sérstakir hagsmunaaðilar stórútgerða í landinu, (Gripið fram í.) við sem jukum stórkostlega álögur á þessi fyrirtæki í sumar (Gripið fram í.) í þágu lítilla og (Gripið fram í.) meðalstórra fyrirtækja.

Ég bið menn að líta í eigin barm, fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Af hverju skoðaði hann þetta ekki, sá spaki maður, þegar hann stóð að veiðigjöldunum eins og þau voru á síðasta kjörtímabili og voru að setja litlar og meðalstórar útgerðir um allt land í þrot, það stefndi ekki í annað? Af hverju skoðaði hann þetta ekki? Af hverju gáfu þeir stórútgerðinni svona mikið? Þessar breytingar gerðum við. Nú er verið að skoða þetta mál þannig að það kemur til afgreiðslu í þinginu í vetur.

Ég ítreka að umræðan mætti verða málefnalegri en hún hefur verið um málefni íslensks sjávarútvegs. Það er okkur gríðarlega mikilvægt að við náum ákveðinni sátt um þennan stóra málaflokk svo að umræðan verði ekki í pólitískum skotgröfum eins og hún hefur verið, að menn (Gripið fram í.) láti reynslu síðasta kjörtímabils sér að kenningu verða, allar þær hástemmdu yfirlýsingar sem hafa verið hér í gegnum tíðina, og að við áttum okkur á því að við erum að fjalla um fjöregg þjóðarinnar. Það er mikilvægt að fara vel með þau egg. Við verðum að ná einhverri niðurstöðu til að atvinnugreinin geti blómstrað til lengri tíma, geti skapað hér hámarksarðsemi fyrir land og þjóð og staðið undir þeirri fjárfestingu og þeim væntingum sem við gerum til hennar um að halda íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð.