143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hlýt að hafa verið alveg hrapallega misskilinn af hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni þegar hann gekk út frá því að þetta sýndi að síðasta ríkisstjórn hefði verið á réttri leið með ákvörðun veiðigjalda. (ÖS: Þú sagðir það sjálfur.) Að sjálfsögðu var ég að tala um hversu röng sú leið væri. Ég var að tala um hversu vitlaust hefði verið gefið. Það er grundvallarforsendan þegar lagður er skattur á atvinnugrein eða einstaklinga að einhvers jafnræðis sé gætt. Þannig var það ekki í þessu. Þess vegna breyttum við þessu í sumar og fengum fyrir það mikla gagnrýni frá öllum stórútgerðarfyrirtækjum landsins svo það sé sagt.

Ég vitnaði í ræðu og fyrirspurn hv. þm. Árna Páls Árnasonar í gær um að nú ætti þetta að fara á uppboðsmarkað en svo segir hv. þingmaður: Ja, þetta voru Vinstri grænir, við komumst ekkert áfram með það, við vildum fara með þetta á uppboðsmarkað. Ég heyrði aldrei þá umræðu í þingsal af ykkar hálfu, hv. þingmanna Samfylkingarinnar, ég man ekki eftir því. Það var um þetta rætt. Það getur vel verið að þið hafið tekist á um þetta við ríkisstjórnarborðið, það eru þá fréttir sem er ágætt að heyra og væri fróðlegt að heyra meira af.

Það er alveg rétt sem ég sagði áðan að það er ákveðin hætta á því að margar af þeim útgerðum sem fá núna 30% úthlutunina og voru kannski tiltölulega nýjar í þessu muni eiga erfitt með að reka sig. Við skulum samt ekki gleyma því að við erum líka að gera hlutina miklu erfiðari fyrir þá sem voru fyrir. Þetta er bara sáttaleið sem á að reyna að fara. Það er alveg augljóst hvert markmiðið er með (Forseti hringir.) framlagningu þessarar tillögu. Það verður atvinnuveganefndar að reyna að vinna áfram með þá sáttahugmynd sem í tillögunum og frumvarpinu felst.