143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kvarta ekki undan sérstöku sambandsleysi millum miðstöðvar hugsunarinnar í heila hv. þingmanns og talfæra hans. Yfirleitt getur hann skýrt mjög vel það sem hann meinar. Hann hefur oft mjög sterkar sannfæringar. Þetta sagði hann. Hann ætti bara að lesa (Gripið fram í.) sína góðu ræðu síðar og ekki meira um það. Ég ætla ekki að deila um þetta.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar menn leggja fram frumvarp af þessu tagi sem getur hugsanlega slegið stoð undan tilvist eins mikilvægs atvinnufyrirtækis verði þeir að skoða hugsanlegar afleiðingar fyrir fram.

Ég hef spurt hæstv. ráðherra hvað valdi þessari skiptingu og vænti þess að hann mundi af skyggnu mannviti færa mér þau svör áðan. Það sama birtist ekki í ræðu hv. þingmanns. Hann talar um málamiðlun. Þetta er hins vegar eins og kylfa hafi ráðið kasti.

Hv. þingmaður, einn af helstu stríðsmönnum stjórnarliðsins varðandi atvinnumál og gjörþekkir sjávarútvegsmálin að eigin sögn og annarra, getur ekki skýrt þetta. Ég spurði hann út í þetta og hann hafði engar skýringar. Svo segir hann: Jú, við skulum kannski skoða þetta í nefndinni og hugsanlega er þá hægt að bjarga atvinnu 100 manna.

Ég er alveg sannfærður um að hvorki hv. þingmaður né hæstv. ráðherra, enginn, fari af stað með svona frumvarp til að veikja fyrirtæki vitandi vits. Á því er samt hætta, það segja þeir á svæðinu. Þetta eru 100 manns sem eiga störf undir ef við tökum veiðarnar og vinnsluna líka. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að hrista höfuðið. Ég heyri það þó ekki hingað.

Hv. þingmaður verður auðvitað í nefndum, ég veit að hann gerir það —

(Forseti (SJS): Forseti biður þingmenn að gæta hófs í orðavali.)

Heyrði hæstv. forseti þetta ekki? Í öllu falli þarf að skoða þetta. Mér finnst ekki hægt að setja fram frumvarp sem skiptir svona miklu máli fyrir umtalsverðan hóp manna án þess að fyrir þinginu séu skýrð rökin á bak við skiptinguna. Ég hef sagt (Forseti hringir.) við hv. þingmann og hæstv. ráðherra að við erum til viðtals og samtals um þetta. Við þurfum bara rökin, en þeir hafa þau enn ekki.