143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég og hv. þm. Jón Gunnarsson deilum þeirri skoðun að sjávarútvegur sé undirstöðuatvinnugrein og eigi að vera í því umhverfi að þar gildi langtímasjónarmið og hagkvæmni sé höfð að leiðarljósi. Hv. þingmaður nefndi í því samhengi mikilvægi þess að ná sátt og við deilum þeirri skoðun líka. En ég vil að það komi skýrt fram að sátt næst aldrei með þeirri hugmyndafræði að sáttin sé aðeins um að annar gangi á hönd sjónarmiða hinna.

Þá segir maður líka: Sátt við hvern? Það er ekki tilviljun að þessi grein hefur verið í uppnámi og í umræðu frá því um síðustu aldamót og þess vegna hvet ég hv. þingmann til að taka þátt í því að leita að sáttinni með því að reyna að auka jafnræðið, auka aðgengið að þessum auðlindum og skapa þannig umhverfi sem eykur trúverðugleikann hvað greinina varðar. Ég skal veita honum liðsinni hvað það varðar.

Það kom fram hjá hv. þingmanni, sem vakti athygli mína, þessi opnun á frelsi varðandi rækjuveiðar, sem brotið var hér upp af því að menn höfðu ekki nýtt heimildina, að þá hefðu menn farið að fjárfesta allt vitlaust og hér hefðu verið 300 millj. kr. í óþörfum veiðarfærum. Eru menn ekki að tala niður þá sem eru í atvinnurekstri með þessum hætti, og þá sérstaklega ef maður hugsar nú um að hér er um að ræða þingmann frá flokki sem talar fyrir frjálsu atvinnulífi og samkeppni?

Réttilega er bent á að það eru ákveðin fyrirtæki sem hafa einmitt nýtt heimildirnar og verið að veiða allan tímann með vinnslu. Er þá hugsanlegt að menn láti þá njóta einhverra forréttinda í sambandi við þessa úthlutun en taki af þeim sem ekkert nýttu heimildina? Hér á að láta alla, jafnvel þá sem hafa ekkert notað hana, fá sömu hlutdeild í kvótanum, 70%, af heildarheimildunum. Kemur þá ekki frekar til greina að segja: Við skulum skoða hverjir hafa nýtt þessa heimild samfellt og úthluta þá til þeirra en setja hitt á markað eða tilboðsmarkað?