143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:27]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um að hlutdeildarsetja úthafsrækju. Það kemur ekki til af góðu, við erum hér að fást við afleiðingar af mislukkaðri stjórnsýslugerð hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar frá því að hann gaf úthafsrækjuveiðar frjálsar. Ekki nóg með það, tilefnið var að rækjan væri ekki að veiðast, kvótinn næðist ekki. Staðreyndin er sú að þessi kvóti náðist síðasta árið sem aflamarkið var á þannig að þetta var í rauninni fallið um sjálft sig. Ég vísa alfarið á bug þeirri fullyrðingu að þetta hafi leitt til þess að rækjan fór að veiðast aftur.

Hér er ekki verið að deila um hvort það þurfi að kvótasetja þetta aftur, málið er að hagstæðast er að hafa þetta í kvóta. Eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er vandamálið að það eru ákveðnir gallar í löggjöfinni. Það er ekki alveg á hreinu hvernig á að skipta þessum hlutdeildum. Við það erum við að fást í dag og það eru margar leiðir í því, allt of margar í rauninni, þannig að ráðherra stendur frammi fyrir því vandamáli að reyna að gæta jafnræðis og líta til allra hagsmuna. Ég tel að hann sé að því. Menn geta deilt um prósentur, hvort þetta eigi að vera 70:30, 100:0 eða 50:50. Menn geta deilt um það en þarna tel ég hann gæta jafnræðis.

Ég bíð bara eftir því að frumvarpinu verði vísað í atvinnuveganefnd og við fáum það til umfjöllunar þar. Við hv. þm. Kristján Möller erum þar báðir og munum taka málið fyrir þar. Við höfum reyndar búið aðeins í haginn, hitt gesti og fengið skýrslur hjá þeim þannig að ég hef ekki trú á því að það taki langt fram á næsta ár að afgreiða þetta mál. Ég held að þetta snúist um það að bretta upp ermar og taka á málinu.

Makríllinn hefur líka aðeins komið hérna til tals. Hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason verður að eiga það sem hann á, þegar hann deildi makríl á flotann notaði hann ekki hefðbundnar aðferðir. Hann deildi honum út miðað við frystigetu, afkastagetu. Hann breytti á einu ári úr því að við værum að vinna 20% af makrílnum til manneldis, sneri hlutföllunum alveg við þannig að við unnum 80% til manneldis á móti 20%. Það var dæmi um snilldarstjórnsýslu og hann á heiður skilinn fyrir það. Ég hugsa að það gæti talist heimsmet að breyta svona á einu ári og til allrar lukku höfðum við afkastamikinn flota í það og ráðherra sem þorði.