143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekki verkefni okkar við 1. umr. að kafa eins djúpt ofan í málið og við munum gera sameiginlega í atvinnuveganefnd þar sem við munum kalla til aðila, alla aðila. Ég tek skýrt fram enn einu sinni: Það sem ég hef verið að flytja hér var úr kynningu frá rækjuvinnslunni Kampa á Ísafirði. Ég mun óska eftir því að fulltrúar frá LÍÚ og öðrum rækjuvinnslum komi til nefndarinnar og skýri sín sjónarmið. Við verðum að fá öll sjónarmið fram.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. Jón Gunnarsson gaf í skyn, að þetta væri ákveðin sáttaleið. Síðan á ég bara eftir að fá rökstuðninginn fyrir prósentunni og málamiðlun. Vafalaust þurfum við að finna hvernig það liggur og það verður unnið í nefndinni.

Tilefni þess, virðulegi forseti, að ég kem hér í aðra ræðu er að í þeirri kynningu sem þetta fyrirtæki hafði fyrir atvinnuveganefnd og hv. þingmaður hlýddi á, settu þeir upp hvernig úthlutað aflamark þeirra sem fengu meira en 2% úthlutun árin 2009 og 2010 var notað. Á þeirri töflu, án þess að ég ætli að fara nákvæmlega í hana og tilgreina einstök skip eða einstakar útgerðir, getum við séð úthlutunina 2009/2010, þ.e. síðasta árið áður en frjálsar úthafsrækjuveiðar hófust, og hvernig það aflamark var nýtt. Og ég get séð í töflunni að mjög mikið af því höfðu aðilar leigt frá sér, var ekki veitt af þeim sem höfðu úthlutunina. Svo getum við séð hvernig þetta er í öðrum gögnum og ég mun óska eftir því að ráðuneytið sýni okkur það í töflum í atvinnuveganefnd og ekki bara fyrir þetta ár. Ég vil alltaf ítreka fyrirvara minn um gögn sem til okkar koma frá hagsmunaaðilum. Eins og ég sagði verða allir að fá að leggja sín gögn fram. En ráðuneytið verður að koma með gögn sem sýna okkur þessi þrjú fiskveiðiár og hvernig þetta hefur þróast, hverjir veiddu út frá úthlutaðri aflahlutdeild 2009/2010, og hverjir komu nýir inn. Þetta þurfum við allt að fá að sjá. En í þeirri töflu sem ég hef hér í höndum og er sett fram af þessu fyrirtæki sér maður þessa skiptingu og hún er dálítið sláandi.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt í umræðu um sjávarútvegsmál að ég er hlynntur aflahlutdeildarkerfi, ég held að það sé besta kerfið sem við höfum. Við getum svo haft alls konar skoðanir á því hvernig hlutirnir eru gerðir. Það versta finnst mér alltaf vera með þá sem ekki veiða heldur leigja frá sér ef það er ekki gert í eðlilegum skiptum. Dæmi: Útgerðir fyrir norðan leigja frá sér karfa sem á að veiðast fyrir Suðurlandi til útgerða fyrir sunnan og fá eitthvað í staðinn fyrir norðan. Það er hagkvæmni í kerfinu. (Gripið fram í.) En þeir sem hins vegar leigja allt frá sér og sýna engan lit í að veiða þær aflategundir sem þeir fá úthlutað — það er að mínu mati allt, allt öðruvísi. Ég hef svolítið aðrar skoðanir hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Þessi 1. umr. hefur að mínu mati verið ágætisumræða. Ég get tekið undir, eins og ég sagði, nokkur atriði sem hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, setti hér fram og að þetta sé málamiðlun. Þá er bara spurningin með skiptinguna 70:30 eða eitthvað annað, hvort við eigum að gera þetta eða láta það eiga sig og rækjan verði veidd á þessu fiskveiðiári eins og gert hefur verið þrjú síðustu fiskveiðiár, eða hvort það eigi að gera þetta á miðju tímabili eins og ég ræddi áðan. Ég bíð eftir svari hæstv. ráðherra á eftir við þeim spurningum mínum.

Hv. þingmaður nefnir að þetta sé málamiðlunarleið og vafalaust er það þannig að ef menn ætla að ganga þessa leið, að kvótasetja þetta á ný, sem stjórnarmeirihlutinn hefur vissulega afl til og meiri hluta til. En mér þótti líka ágætt að heyra að nefndin mundi vega og meta byggðasjónarmið og félagsleg sjónarmið sem koma fram í þessu. Það er alveg hárrétt. Þá ítreka ég enn einu sinni að það eru til fleiri sjónarmið sem geta komið fram en akkúrat frá rækjuvinnslu á Vestfjörðum sem setti þessi gögn fram. Það eru rækjuverksmiðjur og -útgerðir annars staðar á landinu sem kunna að hafa önnur sjónarmið og þau þurfa að fá að koma fram við nefndina við vinnslu hennar á þessu frumvarpi.