143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:01]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt og í raun fagnaðarefni að yngstu þingmennirnir okkar hér á Alþingi sameinist um flutning á þingsályktunartillögu um hálendisvegi. Eðlilega horfa þau til framtíðar og eru framsækin fyrir hönd þjóðarinnar eins og greinargerðin með þingsályktunartillögunni ber með sér.

Sú var tíðin á Íslandi að menn fóru stystu leið til Alþingis, eftir slóðum sem lágu þvert yfir landið, og ein fyrsta vegagerð landsins var einmitt framkvæmd þegar verið var að undirbúa þúsund ára afmæli Alþingis á Þingvöllum. Þá tókum við að leggja vegi út frá helstu byggðakjörnum okkar en síðan, þegar annað afmæli var undirbúið, var hringveginum komið á laggirnar, eða árið 1974, sem var mikið framfaraspor. En enn og aftur: Stystu leiðir milli landshluta liggja yfir hálendið og ef við berum gæfu til að bæta þá vegi mundi það spara mikið í akstri og orku og mengun yrði minni.

Þá þurfum við að hyggja vandlega að fyrirkomulagi varðandi vaxandi straum ferðamanna. Mikilvægt er að dreifa þeim og jafna þannig út álagið á náttúruna. Það eru sannarlega spennandi viðfangsefni að skapa ný og eftirsóknarverð svæði til skoðunar sem og möguleika á lengingu ferðamannatímans. Grundvallartriði sjálfbærrar ferðamennsku á Íslandi er þó að hún skemmi ekki sjálfa auðlindina, sem er hin sérstæða, fagra en viðkvæma náttúra Íslands. Með því að leggja rækt við að bæta og laga hálendisvegi okkar tel ég að við verndum fremur umhverfið vegna þess að ég vona að betri vegir komi í veg fyrir utanvegaakstur sem skemmir mikið.

Ég leyfi mér að benda á að með lagfæringu á Kjalvegi er unnt að slá tvær flugur í einu höggi, leiðin styttist norður en jafnframt er unnt að skapa möguleika á ýmsum nýjum vinklum í ferðamennsku, t.d. er hægt að koma á hringvegi í kringum Langjökul, sem er stórkostleg ný leið fyrir ferðalanga, innlenda sem erlenda.

Fréttablaðið getur um hálendisveg norðan Vatnajökuls í blaðinu í dag. Um er að ræða hálendisveg norðan Vatnajökuls frá Sprengisandsleið til Austurlands sem er mikilvægur, ekki síst sem öryggis- eða varaleið. Verði af þeirri vegalagningu styttir hann leiðina milli Austur- og Vesturlands um eina 200 kílómetra, það er ekki lítið. En þar með er komið að einu veigamesta atriðinu í þingsályktunartillögunni en það er að skapa viðunandi vegi um landið og þar með hálendið en þá vegi er nauðsynlegt að byggja upp, ekki síst ef til vandræða horfir, ef hringvegurinn verður til dæmis ófær af völdum eldgosa, flóða, snjóa, sandbyls eða jarðskjálfta.

Ég vona sannarlega að þessi þingsályktunartillaga ungmennanna hljóti brautargengi á Alþingi.