143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að lengja umræðuna í dag um þetta mál en vil þó koma hér upp og fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé lögð fram. Það er kannski tímanna tákn að það séu þrír yngstu þingmenn í þingsal, alla vega innan stjórnarliðsins, sem standa sameiginlega að þeirri framlagningu með hv. þm. Harald Einarsson sem 1. flutningsmann. Ég segi tímanna tákn vegna þess að eins og komið hefur fram í umræðunni hefur verið ákveðið stefnuleysi í þeim málaflokki og það er mikilvægt að við höfum einhverja skýra sýn á það hvert við ætlum að fara.

Hér hefur verið minnst á umhverfisráðuneytið, umhverfismál og umhverfisráðherra og það er auðvitað þannig að þar er fyrirhugað að setja á laggirnar og undirbúa nýja landskipulagsstefnu sem meðal annars skal samkvæmt lögunum um landskipulag taka mið af því hvernig skipulagi á hálendinu verði háttað. Þar mundi þetta líka koma inn en ég tel þingsályktunartillögu um uppbyggingu á hálendisvegum engu að síður mjög mikilvæga og að hægt sé að vinna að henni samhliða hinu.

Það er líka rétt sem bent er á í greinargerð með þingsályktunartillögunni að það er ekki einasta mikið öryggi sem felst í því að hafa vegi sem er hægt að keyra og eru nýtanlegir heldur er þetta líka umhverfismál og er reyndar minnst á hugsanlega rafbílavæðingu og að þeir bílar geti farið þarna um ef vegirnir verða betri og styttri. Það er líka einfaldlega svo að eins og staðan er í dag verða þarna ákveðin umhverfisspjöll, bílar skemmast, það fara pönnur og olía niður og alls konar vandræði hljótast af því. Auðvitað eyða menn líka meiri orku við að aka vegi sem eru stundum drullan ein og djúpir pollar fyrir utan að þegar vegurinn er nánast ófær er freistandi að fara þar fram hjá svo þetta er líka farið að snúast um hvort menn keyri utan vegar.

Ég tel mjög jákvætt og mikilvægt að taka þetta til skoðunar og það er rétt sem hefur komið fram til að mynda um Kjalveg, þar er umtalsverð starfsemi. Þar eru þrjár hálendismiðstöðvar, ein í Árbúðum, önnur á Hveravöllum og sú þriðja í Kerlingarfjöllum, allar nálægt Kjalvegi. Það er uppbygging á þeim öllum, fyrir utan síðan starfsemi í Langjökli þar sem er verið að taka á móti erlendum ferðamönnum. Við viljum auðvitað gera það sómasamlega. Við viljum líka geta gert það þannig að þarna sé mögulegt að byggja áfram upp til að taka á móti fleirum og gera það líka sómasamlega.

Ég tel mikilvægt að við tökum ferðaþjónustuna til dæmis á þessum vegi á hærra gæðaplan en menn hafa verið að stefna á. Ég held að krafan hjá ferðaþjónustunni sé einmitt í þá átt að ekki sé bara lágmarksaðstaða í salernishúsi eða lágmarks- þetta og lágmarks- hitt. Ég kom í þessar þrjár miðstöðvar í sumar. Ég fór inn á Hveravelli vegna þess að þar eru aðilar að byggja upp þjónustu og kom við í hálendismiðstöðinni í Árbúðum. Þar var hægt að fara í sjoppu og kaupa sér kaffi og kleinur og súkkulaði og dittinn og dattinn. Ég fór í Kerlingarfjöll. Þar er hægt að kaupa „à la carte“, annars vegar kjötsúpu og hins vegar, hvað heitir það nú, plokkfiskur heitir það, það datt úr sjávarútvegsráðherra hér. Þetta er mjög gaman að geta gert.

Staðan er einfaldlega sú að þangað streyma ferðamenn og ég ætla að segja ykkur örlitla sögu í lokin. Þeir Kerlingarfjallamenn voru að koma suður einhvern tímann í apríl, voru að undirbúa húsin og húsnæðið, og mæta þá litlum Yaris á Bláfellshálsi. Ég vildi gjarnan spyrja þá sem eru að tala um að hættulegt sé að hafa uppbyggða vegi, finnst mönnum sá vegur sem Vegagerðin hefur byggt upp inni fyrir Sandá upp að Bláfellshálsi of uppbyggður vegur? Ég held að hann sé mjög fínn og hann liggur vel í landslaginu og hentar mjög vel. Þetta fólk var komið aðeins lengra, upp á Bláfellsháls, í kolniðamyrkri um kvöld og þegar þeir Kerlingarfjallamenn stoppa bílinn og skrúfa niður rúðuna horfa þeir í svolítið tóm augu á fólkinu, það var orðið nokkuð langeygt. Það hafði farið út af hótelinu sínu í Reykjavík, ætlað í Bláa lónið og setti inn á GPS-merkið Blá. Þá setti GPS-tækið inn Bláfellsháls eða Bláfell. Fólkið hafði keyrt samkvæmt því allan tímann og það spurði hvort þetta væri leiðin til siðmenningarinnar, eiginlega við það að tapa sér af angist yfir því hvert það væri komið.

Auðvitað þurfum við að gera ýmislegt. Við þurfum að byggja upp vegina, við þurfum að geta tekið á móti ferðamönnum, við þurfum að hafa ákveðinn metnað í því hvernig það er gert. Eitt af því er að byggja upp vegina og annað er að byggja upp þjónustuna. Þegar við erum með lokað þarf svo að vera tryggt að þær upplýsingar liggi mjög skýrt fyrir þannig að fólk sé ekki að álpast þangað og síðan kosti það Landsbjargarfólk, sem við eigum sem betur fer, stórfé að sækja fólk daginn út og daginn inn, eins og við þekkjum reyndar nú þegar.

Ég vildi líka nefna Fjallabaksleiðina sem er mjög mikilvægt að byggja upp. Hún er gríðarlega mikið keyrð og er öryggisleið fyrir þá sem búa sunnan jökla. Ef hún er ekki fær, ef það gerast þar stórtíðindi, við munum eftir þegar brúin fór af Múlakvísl, þarf sú leið að vera fær. Hún þarf að vera með uppbyggðum vegi sem er nothæfur fyrir fólkið sem býr í landinu, ekki bara fyrir ferðamenn heldur líka fyrir fólkið á svæðinu. Ég tel því að þessi þingsályktunartillaga sé mjög góð og tímabær og fagna því að hún sé komin fram. Eins og kemur fram í henni skal hún unnin í góðri samvinnu við alla hagsmunaaðila og ég tel mjög mikilvægt að sem flestir komi að slíkri vinnu.