143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:40]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra beindi til mín spurningu um uppbyggðan veg um Bláfellsháls. Sá vegur sem hefur verið byggður upp frá Sandá að Bláfellshálsinum er einmitt mjög gott dæmi um jákvæð áhrif vegagerðar. Hann hefur gert fyrirtækjum kleift að vera með til dæmis snjósleðaferðir úr Skálpanesi sem er mikill rekstur og hið besta mál. En þar er maður líka kominn að mörkum hins byggilega og þess sem hægt er að fara að vetrarlagi vegna þess að þegar lengra er komið er snjódýptin orðin svo mikil og svo mikil aftakaveður sem taka við á hálsinum að menn vilja ekki fara öllu lengra en akkúrat þangað.

Eins og vegurinn verður þegar hlánar og vatnsveður verða er gott dæmi um það hvernig svona uppbyggðir vegir geta í mjög vondum veðrum orðið mjög hættulegir. Það eru þau varnaðarorð sem ég vildi koma hér með hvað varðar uppbyggða vegi á hálendinu.