143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nú ber svo við að komið er á veraldarvefinn einhvers konar efnisyfirlit frá svonefndum hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar. Í fæstum tilvikum er þar um útfærðar, hvað þá rökstuddar tillögur að ræða og í engu tilviki fylgja útreikningar sem undirbyggja mögulega hagræðingu á grundvelli þessara tillagna. Það sem helst er hönd á festandi og skýrt er nú sumt dapurlegt eins og að lækka aftur framlög til þróunaraðstoðar og slá af öll áform um frekari úrbætur í fæðingarorlofsmálum.

Það vekur auðvitað athygli að hagræðingarhópurinn fjallar þarna lítið um rekstrarkostnað ríkisstjórnar og fjölda aðstoðarmanna en af því hafa verið að koma fréttir, þar á meðal er á forsíðu dagblaðs í dag að fjórir ráðherrar Framsóknarflokksins séu samtals með 11 aðstoðarmenn, fimm ráðherrar Sjálfstæðisflokksins með sjö. Nú kann að vera að þarna sé eitthvað oftalið og hugsanlega er einhver af þessum 11 aðstoðarmönnum framsóknarmanna upplýsingafulltrúi. Síðan liggur fyrir að einn þeirra verður ólaunaður hvað varðar Stjórnarráðið, þ.e. Alþingi á að greiða launakostnað nýjasta eða næstnýjasta aðstoðarmanns Framsóknarflokksins.

Það er athyglisvert en vekur ekki síður spurningar þegar kemur að stjórnskipulegum mörkum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Aðstoðarmannsstarf er ekki hvaða starf sem er, það byggir á lögum um Stjórnarráð Íslands, samanber 18. og 22. gr. Aðstoðarmanni eru sett erindisbréf af ráðherra og hann heyrir beint undir ráðherra og lýtur beinu boðvaldi hans. Það hlýtur því að þurfa að koma til skoðunar hvort það sé eðlilegt fyrirkomulag að Alþingi greiði launakostnað aðstoðarmanns uppi í Stjórnarráði og hvernig verkaskiptingin og trúnaðarskyldur vegast á, annars vegar maður sem starfar undir boðvaldi ráðherra og hins vegar maður sem er sem þingmaður bundinn af sannfæringu sinni einni á Alþingi.

Ég legg til að hagræðingarhópurinn athugi hagræðingarþátt málsins (Forseti hringir.) en beini því til forseta og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að athuga (Forseti hringir.) hinn stjórnskipulega þátt.