143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegur forseti. Efnafræðingurinn Glúmur Jón Björnsson hefur í fjölmiðlum vakið athygli á því að lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, muni frá og með næstu áramótum valda miklum og óþörfum kostnaði fyrir þjóðarbúið. Viðbótarkostnaðurinn felst í því að hér þarf að kaupa inn dýrara eldsneyti á bílaflotann en annars hefði verið. Fyrir árin 2014–2019 gæti sá kostnaðarauki numið 5–6 milljörðum kr. — og það í gjaldeyri.

Enginn nema Alþingi krefst þess að Ísland beri þennan kostnaðarauka fyrr en árið 2020. Mér finnst fullt tilefni til þess að þingið endurskoði þessa ákvörðun sína í ljósi þessara upplýsinga.

Lögin leiða ekki til minni mengunar. Útblástur bifreiða verður síst minni þótt blandað verði með eldsneyti úr korni. Framleiðsla á eldsneyti með ræktarlandi hefur jafnframt verið harðlega gagnrýnd fyrir að leiða til hækkandi matvælaverðs í heiminum og meiri hungursneyðar. Ef Íslendingar vilja í raun og veru draga úr mengun í heiminum væri mun skilvirkara að nota þessa 6 milljarða til að niðurgreiða nýja rafbíla um 1 milljón hvern. Það mundi duga til að styrkja kaup á 6 þús. rafbílum fyrir árið 2020. Sá rafbílafloti hefði þann kost að nýta hreina innlenda orku og draga úr útblæstri koltvísýrings sem næmi um 35 þús. tonnum árlega. Í stað þess að brenna 6 milljörðum í kaup á matarolíu og dýrum íblöndunarefnum mætti nota fjárhæðina til að byggja upp verðmætan rafbílaflota sem mundi í raun og veru draga úr útblæstri í samgöngum.

Ég skora því á hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að leggja fram frumvarp um að gildistöku laga nr. 40/2013 verði frestað til ársins 2020.