143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri hv. þingmenn hér á undan gera að umræðuefni þau álitamál sem upp koma í tengslum við það að þingmaður gerist aðstoðarmaður ráðherra en taki sér ekki hlé frá þingstörfum á meðan.

Mikil umræða hefur verið um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds í gegnum tíðina. Sjónarmið um að ráðherra skuli ekki jafnframt vera þingmenn byggjast á því að þannig fáist skýrari aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það styrki jafnframt ásýnd þingsins og geti stuðlað að auknu frumkvæði þingmanna við lagasetningu. Á þjóðfundi um stjórnarskrá Íslands sem haldinn var 6. nóvember 2010 kom fram skýr niðurstaða hvað þetta varðar og rík áhersla lögð á það að ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi. Aðrir telja, svo sem stjórnlaganefnd sem skilaði skýrslu árið 2011, að ákvæði í gildandi stjórnarskrá séu rótgróin og að framkvæmd þeirra hafi ekki leitt í ljós stórvægilega galla og því sé í lagi að ráðherrar séu jafnframt alþingismenn. Óvíst sé að breyting á því leiði til sterkari stöðu þingsins gagnvart ráðherrum við undirbúning lagasetningar og eftirlitsstörf þingsins en hugsanlegt þó að lausn undan þingsetu geti skapað ráðherrum meira svigrúm við að sinna ráðherrastarfinu.

Þrátt fyrir orð hæstv. forseta hér áðan vil ég beina þeim spurningum til hæstv. forseta hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að til viðbótar þeim hæstv. ráðherrum sem eru einnig þingmenn séu aðrir hv. þingmenn í starfi hjá framkvæmdarvaldinu því til aðstoðar við að sinna hlutverki sínu. Telur hæstv. forseti ekki að þarna sé enn frekar verið að má út skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og þrískiptingu valds samkvæmt stjórnarskrá sé raskað?

Hæstv. forseti sagðist ekki ætla að gera athugasemdir við þessa tillögu en ég vil biðja hæstv. forseta að skoða þau álitamál betur sem velt hefur verið upp í þessari umræðu.