143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill eingöngu árétta það sem fram kom áðan í máli hans. Hér er um að ræða tímabundna ráðningu, að því er séð verður, til skilgreindra verkefna. Hv. þingmaður mun eftir sem áður gegna sínum þinglegu skyldum og sitja í nefnd eða nefndum eftir atvikum, þannig að hv. þingmaður nýtur ekki sérstakra launa í því nýja verkefni sem hv. þingmaður tekur nú sér.

Hv. þingmenn hafa oft tekið rækilega þátt í undirbúningi mála og aðkomu mála á undirbúningsstigi með setu í nefndum, þeir hafa leitt nefndir o.s.frv. og mótað með þeim hætti löggjöfina sem síðar verður tekin afstaða til á Alþingi. Kallað hefur verið eftir því að alþingismenn kæmu með ríkari hætti að mótun slíkrar undirbúningsvinnu. Það er sérstök umræða, en forseti vill engu að síður vekja athygli á þessu sjónarmiði.