143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er sjálfsagt að verða við því ef hv. þingmaður óskar eftir að yfir þessi mál sé farið rækilegar. Það er engu að síður svo að þessi sólarhringur, eða tæplega það, dugði forseta til að komast að þeirri niðurstöðu sem hann kunngerði áðan. Hér er um að ræða tímabundna ráðningu til skilgreindra verkefna, hér er um það að ræða að hv. þingmaður mun áfram gegna sínum þinglegu skyldum, mæta til þingfunda og sinna nefndaskyldum eftir því sem við á og þar fram eftir götunum, þannig að það sem snýr þar með að Alþingi er að mati forseta viðunandi.

Forseti vekur enn fremur athygli á því sem hann sagði hér fyrr í dag, það er mjög þekkt að hv. þingmenn gegni öðrum störfum, launuðum og ólaunuðum störfum eða verkefnum, utan Alþingis og við því er ekkert að segja. Það er ekkert athugavert við það í flestum tilvikum, og í ýmsum tilvikum raunar til styrkingar starfi Alþingis að mati þess forseta sem hér stendur.