143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari stuttu umræðu hér er ekki hægt að komast yfir mikið og þess vegna er gott að fá tækifæri til að koma aftur í pontu og aðeins að koma inn á það sem hv. þingmenn nefndu hér í tengslum við hagræðingarmálin.

Þeir nefndu líka aðeins þróunarmálin. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að þegar kemur að þróunaraðstoð fer einn stærsti hlutinn, hugsanlega alstærsti hlutinn, í að við styrkjum ríki Evrópusambandsins í gegnum Þróunarsjóð EFTA. Ríki eins og Grikkland, Írland, Bretland, Portúgal og Spánn hafa fengið útdeilt úr þeim sjóði og hækkunin bara á þessu ári er um 700 milljónir til þessara þróunarverkefna. Ef ég skil rétt þá hv. þingmenn sem hér hafa talað er ég sammála þeim um að við ættum frekar, ef þess er einhver kostur, að beina þessu til þeirra ríkja sem hafa minna á milli handanna og eru fátækari. Við ættum að reyna að nýta þá þróunarfjármuni til að hjálpa þeim sem þurfa virkilega á því að halda.

Nú er krafa af hálfu Evrópusambandsins um að við setjum enn meiri fjármuni í þetta en við höfum áður gert. Hér talaði hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir um að sameining heilbrigðisstofnana væri svik við fólk. Ég hlýt því að spyrja hvort það hafi verið svik hjá hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn að sameina heilbrigðisstofnanirnar á Vesturlandi. Leit síðasta ríkisstjórn á það sem svik? Var hún að svíkja fólkið í landinu með því að fara í þann gjörning? Það var ekki lagt þannig upp og eftir því sem ég kemst næst hefur sú sameining gengið ágætlega og gert það að verkum að það er auðveldara að sinna grunnþjónustu miðað við þær fjárheimildir sem eru til staðar. Þetta hefur styrkt grunnþjónustuna.

Út af þeim stóru orðum sem hér (Forseti hringir.) hafa fallið væri áhugavert að vita hvort stjórnarandstæðingar líti svo á að þeir hafi verið að svíkja fólkið í landinu með þessari sameiningu.