143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[15:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir spurningar hans og hugleiðingar. Það hefur auðvitað verið — nú ætlar sú sem hér stendur ekki að eigna sér það neitt sérstaklega — mjög mikil vinna í innanríkisráðuneytinu í kringum það og vangaveltur um hvort verkefni þurfi að vera þar, hvort þau gætu verið betur varin annars staðar og hvort tilflutningur verkefna gæti skilað meiri hagkvæmni og betri þjónustu. Ég held að að einhverju leyti sé það vegna þess að innanríkisráðuneytið er tiltölulega nýtt ráðuneyti. Ég held að það valdi því að menn fara aðeins upp á svalirnar eins og það er stundum kallað og líta yfir verkefnin með öðrum hætti. Ég tel að þetta feli í sér mörg sóknarfæri. Þessi vinna var komin af stað fyrir mína ráðherratíð, en við fylgdum henni eftir með því frumvarpi sem hér er lagt fram. Það er mikill áhugi innan innanríkisráðuneytisins og mikill vilji, bæði meðal stofnana ráðuneytisins og starfsmanna, að fara í fleiri svona verkefni.

Já, við teljum að sóknarfærin séu til staðar. Við teljum að helsta sóknarfærið sé að efla og stækka sýslumannsembættin, að það sé langstærsta og mikilvægasta verkefnið sem við getum farið í til þess að færa þjónustu nær almenningi og efla hana í hverju héraði. Forsenda þess eru stærri sýslumannsembætti. Eins og þau eru í dag ráða þau síður við verkefnið. Það er kannski stærsta málið.

Síðan nefnir hv. þingmaður það sem ég held að sé mikilvægasta og mest ögrandi viðfangsefni okkar, þ.e. að ræða um verkefni á milli ráðuneyta. Ég hef til dæmis átt samtal við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um það hvort við getum tryggt aukið samstarf á vettvangi samkeppnis- og neytendamála. Sú umræða hefur verið í gangi.

Svo minni ég þingheim á, ég veit ég þarf ekki að gera það, að lesa vel tillögur hagræðingarhópsins sem nýlega hafa verið lagðar fram. Þær eru mjög djarfar og öflugar og í raun tímamótatillögur um að líta ekki á þennan verkefnatilflutning út frá ráðuneytum heldur út frá almenningi.