143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[16:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni hvatninguna í þessu öllu og tek undir með hv. þingmanni. Ég vek athygli á því, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að breytingunni sem felst í færslu meðferðar ríkisborgararéttar til Útlendingastofnunar fylgir fjármagn og því fylgir kostnaður sem nemur 1,5 stöðugildum sem fylgir verkefninu. Hins vegar er það hárrétt sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á sem lýtur að starfsskilyrðum og að einhverju leyti starfsháttum Útlendingastofnunar. Ég held að við sem löggjafinn í þessu landi þurfum að fara yfir það mjög gaumgæfilega. Ég held að það lúti ekki beint að þessu frumvarpi heldur almennt að hraðanum því að það hefur verið mannekla hjá Útlendingastofnun, það er ekki nægilegt hald í því, ekki nógu margir starfsmenn. Svo er það regluverkið sem hefur líka gert það að verkum að erfitt er að sinna verkum hratt og örugglega.

Við þurfum að hafa hugrekki til þess að horfa á útlendingamálin aðeins öðruvísi en við höfum gert. Mér finnst stundum eins og við nálgumst þau sem ógn en ekki sem tækifæri og að við kjósum frekar að vera stödd í hugmyndinni um ógnina en tækifærin. Það sem ég á við með því er til dæmis að þegar einstaklingar sækja hér um dvalarleyfi, fólk sem búið hefur lengi í landinu, hefur fest hér rætur og svo framvegis, þá virðist manni, með mikilli virðingu fyrir störfum Útlendingastofnunar, að regluverkið valdi því einhvern veginn að þau mál taki óskaplega langan tíma, ég mundi næstum því segja að það sé ósanngjarnt hversu langan tíma það tekur.

Ég held því að við þurfum að horfa á starfsskilyrði Útlendingastofnunar í heild sinni, hvernig hægt er að gera betur, af því að það er mikill vilji hjá Útlendingastofnun til að gera hlutina vel og örugglega. En við þurfum að velta því fyrir okkur hvort við eigum að taka alla hópa nákvæmlega eins eða hvort við getum tryggt það með einhverjum hætti að hlutirnir gerist hraðar, af meira öryggi og um leið að við bjóðum þá sem hér vilja setjast að meira velkomna en við höfum gert að undanförnu.