143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[16:08]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er einmitt tengt því stóra máli sem við munum leggja fram þegar við fjöllum um útlendingamálin, ekki þá þann sérstaka tilflutning sem hér er til umræðu, heldur því að við munum flytja hér frumvarp fyrir áramót sem gerir ráð fyrir ákveðnum breytingum til þess að auðvelda Útlendingastofnun störfin, sem átt hefur við mjög erfið og stór mál, við skulum líka átta okkur á því. Það hefur verið gríðarlega erfitt að halda utan um þetta verkefni að undanförnu og hefur tekist vel til að mörgu leyti. En það sem ég staldra aðallega við er kannski ekki endilega — eitt eru þessi erfiðu mál sem tengjast hælisleitendum og við höfum verið að ræða hér að undanförnu. Þar er ákveðinn rammi sem gerir okkur kannski aðeins erfiðara fyrir.

Ég hef verið dálítið hugsi undanfarið varðandi íslenska umræðu í tengslum við þessi mál því að ég sat nýlega þing með samráðherrum mínum frá Evrópusambandinu og Norðurlöndunum. Þar skilgreindi Evrópusambandið þá staðreynd sem einn stærsta vanda sinn, efnahagsvanda, hagvaxtarvanda og lífsgæðavanda, að innflytjendur fara frekar fram hjá Evrópu en að óska eftir því að dvelja þar. Evrópusambandið skilgreinir það sem einn stærsta vanda sinn að það fái ekki þau tækifæri, þá fjölbreytni sem kemur með því að fólk frá öðrum löndum hefur áhuga á að setjast að í landinu og óskar eftir dvalarleyfi eða atvinnuleyfi. Rannsóknir sýna að þetta fólk fer fram hjá Evrópu. Evrópusambandið telur sérstaka ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af því vegna framtíðaruppbyggingar í þeim heimshluta.

Ég held að við eigum að gæta að því hér á landi, vegna þess að við búum auðvitað við ákveðna einangrun vegna þess hvar við erum stödd á heimskortinu, að fagna því ef fólk hefur áhuga á að dvelja hér og búa og eiga hér sitt líf og nálgast það í auknum mæli sem tækifæri og skilgreina það þannig.