143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

pólitísk afskipti af stjórn Landsvirkjunar.

[10:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vona sannarlega að ekki standi fyrir dyrum flokkspólitísk afskipti af framkvæmdastjórn Landsvirkjunar. Það væri afturhvarf áratugi aftur í tímann. (Gripið fram í.) Slíkt afturhvarf upplifðum við í gær þegar iðnaðarráðherra sjálfur gróf undan stjórnendum Landsvirkjunar, veikti samningsstöðu Landsvirkjunar í erfiðum samningum við erlenda stóriðju, sendi þau skilaboð til gagnaðila að stjórnendur Landsvirkjunar væru í þröngri stöðu, erfiðri samningsstöðu, með mikinn pólitískan þrýsting á bakinu um að lækka verðið nógu mikið til að verkefnin fengjust.

Ég kalla eftir því að hæstv. fjármálaráðherra, sem gæta á eigendastefnunnar og hefur lýst því hér sérstaklega yfir að hún sé í gildi og á að gæta þess að arðsemi sé höfð í fyrirrúmi í rekstri Landsvirkjunar, lýsi því yfir að markmið Landsvirkjunar sé arðsemi af orkusölusamningunum. Afturhvarf það sem hæstv. iðnaðarráðherra er að reyna er afturhvarf til þeirrar tíðar þegar pólitískir ráðherrar skipuðu stjórnendum Landsvirkjunar að láta í té orku til erlendrar stóriðju á útsöluprís hvað sem það kostaði til að þjóna kjördæmahagsmunum þeirra.

Ég hélt að tekist hefði samstaða í þinginu um að hætta að skipa pólitíska forustu í framkvæmdastjórn Landsvirkjunar og að stjórnmálamenn hættu að skipa Landsvirkjun að lækka prísana til að þjóna pólitískum markmiðum, að við stæðum hér heil og óskipt að baki stjórnendum Landsvirkjunar, Íslendingar sem ein þjóð, í samningum við erlenda aðila til þess að reyna að fá eins gott verð fyrir orkuna sem við eigum og mögulegt er. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að taka af öll tvímæli um það og lýsa því yfir gagnvart viðsemjendum okkar að við gerum kröfu um arðsemi og að það sé forgangsatriði í þeim samningum sem við eigum, ekki einstök áhugamál einstakra þingmanna í þessum sal.