143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

bílastyrkir lífeyrisþega.

[10:50]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég treysti því að þegar hv. þm. Freyja Haraldsdóttir kemur inn á þing haldi hún áfram að spyrja mig að hugðarefnum sínum og í raun mínum líka eins og þingmaðurinn fór hér yfir.

Eins og þingmaðurinn útskýrði þá erum við hér að tala um tvær stofnanir sem heyra undir tvo ráðherra, við sitjum síðan saman í ráðuneyti sem heitir velferðarráðuneyti og skiptingin er með þeim hætti sem þingmaðurinn fór í gegnum. Við höfum verið að huga að því hvernig hægt sé að ljúka þeim aðskilnaði sem farið var í fyrir nokkrum árum varðandi Tryggingastofnun og Sjúkratryggingar. Ég hef auk þess verið að vinna að verkefnum sem snúa að því að skoða fýsileika — og ég hef rætt það hér í þingsal líka — þess að sameina ýmsar þjónustustofnanir fyrir fatlað fólk.

Það mundi til dæmis skipta mjög miklu máli, til að auðvelda fólki sem nýtir sér þjónustu allra þessara stofnana, að þurfa bara að fara á einn stað. Verið er að tala um áhuga á því að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra kæmi þar inn á en verkefni okkar hefur snúið að þeim stofnunum sem heyra sem sagt undir velferðarráðuneytið og þá tvo ráðherra sem hér er talað um — Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Ég hef síðan líka nefnt að mér þætti mjög áhugavert að fá inn það sem snýr að hjálpartækjum hjá Sjúkratryggingum, þannig að það væri þá annaðhvort staðsett — ef tekin verður ákvörðun um að fara í þessa sameiningu — hjá þessari nýju stofnun eða að það færi þá undir Tryggingastofnun. Það snýr að því að þær stofnanir sem ég nefndi eru að sinna hjálpartækjum að ákveðnu marki og þarna værum við komin með þetta á einn stað. Ég get nefnt eina miðstöð eða félagsskap í viðbót sem ekki er á vegum ríkisins, sem er Tölvumiðstöðin. Þarna værum við komin með mjög öfluga þjónustumiðstöð fyrir fatlað fólk. Þar af leiðandi væri líka hægt að huga enn frekar að verkefni sem ég er að setja af stað sem snýr að því að innleiða velferðartækni í auknum mæli hér á Íslandi.