143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

opinn hugbúnaður í menntakerfinu.

[11:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra viðleitnina og býð fram þjónustu mína við að koma málinu áfram og útskýra þau vafaatriði sem eru sjálfsagt enn þá til staðar.

Mig langar aðeins að minnast á kostnaðinn. Það er satt að hægt er að spara kostnað með opnum hugbúnaði en það hefur verið vandamál hjá þeim menntastofnunum sem ég hef talað við að þær lenda í því að skorið er niður fjármagn til þeirra fyrir að innleiða hugbúnaðinn. Þeim er kannski ekki refsað fyrir það en þær sjá sér ekki endilega hag í því, ef það er aðalmarkmiðið, að gera það. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér betur opinn hugbúnað í skólastarfinu og býð fram þjónustu mína við að aðstoða við þau mál eftir bestu getu.