143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

opinn hugbúnaður í menntakerfinu.

[11:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þigg með þökkum slíka aðstoð. Eins og fram kom í svari mínu hér veitir mér ekki af. Þarna er bent á ákveðið atriði sem ég tel skipta máli sem er það að ef stofnanir spara — og ég sé að þingmenn gleðjast yfir því að það hefur fjölgað aðstoðarmönnum, ég er reyndar mjög vel settur í þessum málum og þarf ekki á fleiri aðstoðarmönnum að halda. Vandinn er sá sem hv. þingmaður nefnir að ef stofnun sparar verður henni, eins og það var orðað hér, refsað fyrir með því að dregið er úr fjárheimildum. Þetta er ákveðinn vandi. Við viljum að stofnanir spari til að spara ríkissjóði útgjöldin, þannig er það auðvitað, en stofnunin sjálf hugsar með sér: Heyrðu, ég er ekki ríkissjóður, ég er bara með minn rekstur og ég hef ekki áhyggjur af stóru myndinni.

Það er tengingin á milli þess sem verið er að gera í hverri stofnun annars vegar og hins vegar afkomu ríkissjóðs sem er svolítið flókin. Við erum að senda skilaboð um að við viljum aukinn sparnað. Hvernig tryggjum við að hagsmunir viðkomandi stofnana og hagsmunir ríkissjóðs (Forseti hringir.) fari saman? Ég tel þetta mikilvægan punkt sem hv. þingmaður nefndi.