143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hægt væri að ræða þessi mál án þess að vera með einhverjar upphrópanir eða kenningar um hver ber ábyrgð á hverju. Það er öllum ljóst að efnahagshrunið 2008 hafði alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag þjóðarinnar og fyrir ríkisfjármálin. Við það hefur verið glímt undanfarin ár og margir hafa komið þar að, stjórnvöld, einstakar stofnanir, atvinnulífið, Alþingi og að sjálfsögðu allir stjórnmálaflokkar með einum eða öðrum hætti. Það er ekkert hægt að neita því að gríðarlegur árangur hefur náðst í því efni, en allir viðurkenna að við erum ekki komin fyrir horn, það er ekki þannig.

Það er vonandi að þeirri ríkisstjórn sem situr í landinu hverju sinni takist að hafa stjórn á ríkisfjármálunum, við hljótum öll að vona það. Ég tel að hæstv. fjármálaráðherra, sem að mínu viti er yfirleitt mjög vandur að virðingu sinni, eigi alveg að geta komið og sagt að margt hafi áunnist í þeim efnum, varðandi ríkisfjármálin, í tíð síðustu ríkisstjórnar þótt hann hafi ekki átt sæti í henni og ekki hans flokkur, alveg eins og við hljótum að sjálfsögðu að hvetja hann og styðja til þess að ná góðum árangri í þeim verkum sem hann er að taka sér fyrir hendur núna.

Ég held hins vegar að ýmis teikn séu á lofti um erfiðleika fram undan eins og í atvinnulífinu, eins og að því er varðar fjárfestingarnar, sem hér hefur aðeins verið komið inn á, að því er varðar gjaldeyrishöftin og að því er varðar gjaldmiðilinn. Þetta eru allt álitamál og erfið mál sem við munum þurfa að takast á við á næstunni. Það er auðvitað hætt við því, burt séð frá því hvaða skoðun maður hefur t.d. á aðild að Evrópusambandinu, að smár og óstöðugur gjaldmiðill sem nýtur lítils trausts losni seint og illa úr höftunum sem hrunið læsti hann í þrátt fyrir að fjármálaráðherra sé bjartsýnn í því efni.

Efnahagslíf sem býr lengi við þær aðstæður mun (Forseti hringir.) hafa í för með sér skert lífskjör og valda fjölskyldum, atvinnulífinu og hinu opinbera búsifjum til (Forseti hringir.) langframa. Það eru veruleg áhyggjuefni og atriði sem við eigum og verðum að ræða af fullri alvöru.