143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að gera að umfjöllunarefni uppsafnaðan halla ríkisstofnana sem Ríkisendurskoðun gerir ítrekað athugasemdir við. Þetta hefur í rauninni fengið að viðgangast í allt of miklum mæli án þess að gripið hafi verið til aðgerða. Hallinn getur auðvitað bæði verið til kominn vegna þess að ekki er nógu vel haldið utan um reksturinn en líka vegna þess að stofnun fær einfaldlega ekki fjárframlög til að sinna sínum lögbundnum verkefnum. Þegar stofnun fer fram úr fjárheimildum ber ráðuneyti og ráðherra að grípa til aðgerða. Það er í rauninni um tvennt að velja, það er að auka fjármagn til viðkomandi stofnunar og finna þá peninga einhvers staðar annars staðar eða skera niður þjónustuna.

Við virðumst þó, því miður, oft velja þriðju leiðina sem er að ýta vandanum lengra inn í framtíðina. Þannig hefur safnast upp halli sem enginn virðist beinlínis vita hvað á að gera við nema kannski ýta honum enn lengra inn í framtíðina. Ef ég skil rétt er uppsafnaður halli ríkisstofnana í árslok 2012 22–23 milljarðar samkvæmt ríkisreikningi, en ég veit reyndar ekki enn hvað verður fellt niður af þeirri upphæð í lokafjárlögum 2012 þar sem þau hafa ekki verið lögð fram.

Ríkisendurskoðun bendir einnig á að það vanti aga og áætlanagerð og það er rétt. Ég held að við séum öll sammála um það og við bindum miklar vonir við ný lög um fjárreiður ríkisins sem verða til bóta. Hins vegar er ekkert nóg að breyta lögunum ef hugarfarið breytist ekki. Fjárlög eru lög og það er óheimilt að fara fram úr fjárlögum en samt er það ítrekað gert. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að hugarfarið og menningin sé vandamálið en ekki formið. Þannig skilst mér að fjáraukalög þekkist varla annars staðar á Norðurlöndunum en við notum þau óspart hér. Ég held að við séum öll sammála um að það þurfi að auka agann og við eigum að hjálpast að við það.