143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum í þessari umræðu reynt að fá botn í það hvort staðan sé betri eða verri á ríkissjóði miðað við það sem við vonuðumst til þegar fjárlög voru frágengin fyrir árið. Við fjöllum um útkomuáætlun í fjárlagafrumvarpi næsta árs og þar ræðum við um helstu forsendur og frávik sem talin eru vera fyrirsjáanleg, bæði á tekju- og útgjaldahlið ársins. Sú áætlun byggir á þeim upplýsingum sem voru fyrirliggjandi. Í fjármálaráðuneytinu teljum við að ekkert hafi komið fram að svo stöddu sem gefi tilefni til endurskoðunar á henni en að sjálfsögðu mun endurmat fara fram fyrir 2. umr. fjárlagafrumvarps í tengslum við endurskoðaða þjóðhagsspá.

Staðan er því alveg ótvírætt verri en við vorum að vonast til ef við berum okkur saman við fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs. Síðan hafa menn verið að vinna með áætlanir yfir útkomu ársins sem gerðar hafa verið í millitíðinni og uppfærðar slíkar áætlanir. Ég rakti í fyrri ræðu minni helstu fyrirvara sem menn verða að hafa á skýrslu Ríkisendurskoðunar vilji menn reyna að leiða fram mögulega niðurstöðu á rekstrargrunni fyrir árið 2013. Þá er það því miður þannig að við erum að sigla í um það bil 30 milljarða halla en ekki 3 milljarða eins og fjárlögin gerðu ráð fyrir.

Talsvert hefur verið spurt um framkvæmd fjárlaga og ég get nefnt nokkur atriði. Á síðastliðnum árum hefur hlutverk fjáraukalaga verið takmarkað og ég vil fylgja þeirri stefnu áfram. Mér finnst augljóst að endurskoðun fjárreiðulaganna, nýtt frumvarp til laga um opinber fjármál, muni líka færa okkur fram veginn í þessum efnum. Við höfum verið að þróa áhættugreiningar í tengslum við fjárhagseftirlit og sú vinna getur skilað árangri hér. Það hefur verið unnið að ýmsum úrbótum varðandi bókhald og uppgjör að undanförnu og á undanförnum missirum sem geta skilað árangri.

Fjárlögin gerðu ráð fyrir eignasölu upp á 4,5 milljarða. Það var alls ekki (Forseti hringir.) nægilega vel útfært en við gerum ekki ráð fyrir sölu á fjármálafyrirtækjum á þessu ári. (Forseti hringir.) Við gerum hins vegar ráð fyrir því að ríkisstjórnin fái heimild til eignasölu á næsta ári í fjárlagafrumvarpinu. (Forseti hringir.) Þetta eru nokkur þeirra atriða sem ég átti enn eftir ósvarað en nú er tíminn því miður úti.