143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

geislavarnir.

23. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um geislavarnir. Málið er endurflutt frá 141. þingi en þá komst það ekki á dagskrá í þinginu og fékk því ekki efnislega umræðu. Frumvarpið kom nú í haust inn í velferðarnefnd og við höfum fjallað um það, fengið tvo gesti frá velferðarráðuneyti og Geislavörnum ríkisins og einnig bárust nokkrar umsagnir.

Um þetta frumvarp, herra forseti, ber að segja að það er mjög vel unnið. Það er ekki alltaf sem hingað inn koma vel unnin frumvörp. Það var ánægjulegt að vinna við þetta frumvarp. Það var þó þannig að nefndin gerði á því örlitlar breytingar sem ég fer yfir í lok framsögu minnar.

Endurskoðun laga um geislavarnir ber merki af því að geislavarnir eru alþjóðlegt svið og hafa á síðustu árum orðið áherslubreytingar á alþjóðlegum vettvangi geislavarna. Hér vil ég helst nefna ákvæði sem eru breytt vegna læknisfræðilegrar geislunar en það er sem sagt endurskilgreining á hugtakinu hvað sé læknisfræðileg geislun. Lögð er áhersla á að meta gagnsemi og áhættu þegar verið er að geisla fólk því að geislun vegna sjúkdómsgreininga við læknisfræðilegar myndgreiningar hefur aukist mikið undanfarin ár og er nú um 75% af geislaálagi vegna læknisfræðilegrar geislunar. Ef þetta frumvarp verður að lögum verður skylda að meta gagnsemi og áhættu af notkun annarrar tækni sem fyrir hendi er og nýtir minni eða enga jónandi geislun. Þá er einnig lögð aukin áhersla á að við skipulagðar geislunaraðstæður skuli takmarkið vera að beita réttri geislun en ekki endilega sem minnstri geislun.

Síðan má nefna að samkvæmt þessu frumvarpi er ráðherraskipað geislavarnaráð tekið út úr lögunum enda hefur það ekki komið saman árum saman en Geislavarnir ríkisins hafa verið með ráðgjöf á þessu sviði.

Eitt af þeim atriðum sem nefndin skoðaði sérstaklega við vinnu sína var að með breyttri skilgreiningu á læknisfræðilegri geislun gilda ákvæði laganna um þess háttar geislun ekki lengur um réttarfarslega geislun, þ.e. vísvitandi geislun einstaklinga í öryggisskyni eða vegna rannsóknar sakamála, geislun fanga, grunaðra smyglara eða vegna aldursgreiningar. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins kemur hins vegar fram að ráðherra muni setja reglugerð þar sem m.a. verði ákvæði um þess háttar geislun. Nefndin telur, með hliðsjón af þeim ummælum sem fram koma í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins að rétt sé að í reglugerðarheimildum — sem sagt með tilvísun í að setja eigi reglugerð um réttarfarslega geislun án þess að orðalagið „réttarfarsleg geislun“ komi fyrir í lagatextanum og með hliðsjón af ummælum um reglugerðina — komi skýrt fram að á grundvelli þeirra setji ráðherra ekki aðeins nánari ákvæði um mat á gagnsemi og hættu við notkun á jónandi geislun heldur komi þar einnig skýrt fram að reglugerðarheimildin taki einnig til réttarfarslegrar geislunar. Þá er einnig ljóst að gæta þarf sömu öryggissjónarmiða við réttarfarslega geislun og við læknisfræðilega geislun enda fer réttarfarsleg geislun í vissum tilvikum fram á heilbrigðisstofnunum. Það er hins vegar ekki algilt og má sem dæmi nefna geislun flugfarþega í öryggisskyni.

Leggur nefndin því til breytingar á reglugerðarheimild 7. gr. frumvarpsins sem og 13. gr. frumvarpsins þannig að 15. gr. laganna, sem fjallar um framkvæmd læknisfræðilegrar geislunar, gildi einnig um framkvæmd réttarfarslegrar geislunar eftir því sem við á. Vegna þessara breytinga verður einnig talið nauðsynlegt að réttarfarsleg geislun sé skilgreind í 3. gr. laganna og leggur nefndin til þá skilgreiningu að réttarfarsleg geislun sé geislun einstaklinga í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, svo sem vegna rannsóknar sakamála eða í öryggisskyni. Einnig getur fallið þar undir geislun vegna aldursgreiningar.

Þetta eru þrjár breytingar sem nefndin leggur til en í fjórða lagi leggjum við til að lögin taki ekki gildi þegar í stað heldur 1. janúar 2014 og er það samkvæmt ósk frá Geislavörnum ríkisins sem telja tæknilega annmarka á því að frumvarpið verði að lögum núna í miðjum mánuði og áhættulaust að bíða með gildistöku laganna fram til næstu áramóta.

Undir álit þetta skrifa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, framsögumaður, Þórunn Egilsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Elín Hirst, Katrín Júlíusdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Vilhjálmur Árnason og Freyja Haraldsdóttir.