143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

148. mál
[11:47]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992, þar sem segir, með leyfi forseta, í 1. gr. frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar:

„3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:

Stjórn sjóðsins setur nánari úthlutunarreglur um útfærslu á lögum þessum, þ.m.t. fjárhæð og úthlutun námslána, sem og ákvæði um kröfur um lágmarksnámsframvindu. Reglurnar skulu lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra eigi síðar en 1. febrúar ár hvert.“

Samkvæmt frumvarpinu er sem sé kveðið á um skyldu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að setja sérstakar úthlutunarreglur til nánari útfærslu á lögunum og þurfa þær að vera samþykktar af ráðherra. En hér er kveðið á um þá nýbreytni að tímamörkin eru skýr varðandi það hvenær reglurnar skuli kynntar.

Tildrög og aðdragandi þess að þetta mál er hér sett fram má segja að sé af tvennum toga. Í fyrsta lagi kom fram, eins og öllum er kunnugt, mjög eindreginn vilji hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í sumar sem leið til þess að breyta úthlutunarreglum sjóðsins. Reglunum var breytt með það að leiðarljósi að mæta niðurskurðarkröfu fjármálaráðuneytisins. Menntamálaráðuneytið hefur fengið á sig tiltekna kröfu um að skera niður til lánasjóðsins og virtist síðan menntamálaráðherra nota þá leið að hluta til til þess að mæta þeirri kröfu. Lagt var upp með að gerð yrði krafa um meiri námsárangur og hraðari námsframvindu sem forsendu lánveitingar.

Við ræddum þetta mál ítarlega í þinginu vegna þess að þeirri sem hér stendur þótti nokkuð ljóst að þarna væri verið að fara gegn góðri stjórnsýslu, að þarna væri um afar skamman fyrirvara að ræða þegar innan við tveir mánuðir voru til stefnu þar til skólaárið hæfist. Var í þeirri umræðu vísað til álits umboðsmanns Alþingis sem er, má segja, hin ástæðan fyrir því að þetta er rætt hér og lagt fram, þar sem í máli umboðsmanns, nr. 6109/2010, er um að ræða mjög skýr tilmæli til mennta- og menningarmálaráðherra og Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að tryggja námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til þess að bregðast við breytingum á úthlutunarreglum.

Niðurstaða álits umboðsmanns er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að stjórn LÍN og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki gefið námsmönnum fullnægjandi ráðrúm til þess að bregðast við breytingu á framkvæmd útreiknings á hámarki skólagjaldalána …“

Það var það umfjöllunarefni sem þarna var undir.

Og áfram með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af fyrri stjórnsýsluframkvæmd og að virtum ríkum hagsmunum námsmanna tel ég að ekki hafi verið að þessu leyti gætt viðeigandi lagasjónarmiða og vandaðra stjórnsýsluhátta af hálfu stjórnar LÍN og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um birtingu og gildistöku þessa ákvæðis úthlutunarreglnanna.“

Síðar í álitinu segir umboðsmaður, með leyfi forseta:

„Ég beini hins vegar þeim almennu tilmælum til stjórnar LÍN og mennta- og menningarmálaráðuneytisins að framvegis verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu um kynningu og gildistöku við breytingu á stjórnsýsluframkvæmd.“

Við töldum hér, stjórnarandstaðan, sú sem hér stendur og fleiri, við þessa ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra í sumar að þessi sjónarmið ættu við, þ.e. að hér þyrfti að gæta betur að réttarstöðu námsmanna, að gæta þess að fullnægjandi fyrirvari væri fyrir hendi. Þess má geta í þessu samhengi að í frumvarpi fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur, sem lagt var fram fyrir kosningar í vor og er heildarendurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, kemur fram sama sjónarmið; í því frumvarpi eru þessi sjónarmið tryggð, reglurnar skulu lagðar fram til kynningar eigi síðar en 1. febrúar ár hvert og staðfestar af ráðherra.

Hæstv. forseti. Ekki eru áform um það hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að leggja fram það frumvarp til afgreiðslu hér í þinginu í vetur, að minnsta kosti hefur það ekki birst á þingmálaskrá ráðherra þannig að rétt þótti að leggja fram það frumvarp sem hér er mælt fyrir. Flutningsmenn eru: Sú sem hér stendur og hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðbjartur Hannesson og Páll Valur Björnsson. Hv. þingmenn Helgi Hrafn, Guðbjartur og Páll Valur sitja með mér í allsherjar- og menntamálanefnd þannig að frumvarpið er lagt fram af öllum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni. Þar sem ekki eru líkur til þess að hæstv. ráðherra muni leggja fram frumvarp þessa efnis er markmiðið með frumvarpinu að tryggja réttaröryggi, að þess sjáist staður í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Við þetta tækifæri er hægt að rekja það sem gerðist í framhaldinu í sumar þegar námsmannahreyfingarnar höfðuðu mál gegn menntamálaráðherra og stjórn Lánasjóðsins. Er skemmst frá því að segja að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að Lánasjóður íslenskra námsmanna og menntamálaráðherra hafi ekki farið að lögum. Ráðherra ákvað hins vegar, í samráði við stjórnarformann LÍN, að íslenska ríkið mundi ekki áfrýja niðurstöðunni eins og fram kom á vef ráðuneytisins í sumar. Þegar þær fréttir lágu fyrir kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann teldi að þar með væri búið að eyða ákveðinni óvissu að því er varðar komandi vetur.

Ráðherrann hefur hins vegar boðað að breytingar verði gerðar sambærilegar þeim sem boðaðar voru í sumar sem leið en að þær verði þá gerðar með fullnægjandi fyrirvara. Við töldum rétt, flutningsmenn þessa frumvarps, að ekki dygði góður vilji ráðherra á hverjum tíma, dómafordæmi og umsagnir umboðsmanns eða álit umboðsmanns eins og hér er vísað til, heldur þyrftu hér að liggja fyrir skýrar breytingar á gildandi lögum.

Þess vegna er mælt fyrir því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Virðulegur forseti. Ég vona að ég hafi rakið með nokkuð tæmandi hætti bæði tildrög og innihald þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar og vænti þess að það fari til frekari vinnslu í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd.