143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

nauðungarsala.

150. mál
[12:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna líka umræðunni en eftir ágæta ræðu hv. þingmanns þá er ég ekki alveg viss um hvort hv. þingmaður vill raunverulega styðja frumvarpið eða er á móti því. Ef ég skil hann rétt, eða samkvæmt tilfinningunni sem ég fæ, að hann mundi ekki greiða atkvæði með því, þá velti ég fyrir mér nákvæmlega hvers vegna. Til að útskýra hvers vegna þá minnist hv. þingmaður réttilega á að þessi nálgun varðar bara Íbúðalánasjóð og lagalegar ástæður eru fyrir því. Enn fremur minnist hv. þingmaður á að hjálpa þurfi öllum en með misjöfnum hætti, sem er hárrétt, vegna þess að ástandið er orðið mjög flókið og ekki auðséð nákvæmlega hvernig hægt er að hanna lausn sem virkar fyrir alla. Þvert á móti er eiginlega auðséð að svo er ekki og því þarf augljóslega mismunandi leiðir fyrir mismunandi aðstæður.

Þetta er ein leið fyrir fólk í ákveðnum aðstæðum, nefnilega fólk sem er með lán hjá Íbúðalánasjóði og bíður úrskurðar um lögmæti lánanna. Því að mér sýnist gæta örlítils misskilnings um að þetta sé spurning um að bíða eftir þessari margumtöluðu lækkun frá Framsóknarflokknum og ríkisstjórninni en þetta snýst aðallega um lögmæti lánanna sem enn sem komið er er oft og tíðum óskýrt. Það er á þeim forsendum og af þeim ástæðum sem hér er lagt til að fresta nauðungarsölum; á meðan lagaleg óvissa er til staðar. Um leið og henni er lokið þá taka nauðungarsölur sjálfsagt við algjörlega burt séð frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Í ljósi þessa velti ég fyrir mér hvort, og þá hvers vegna, hv. þingmaður er á móti eða með frumvarpinu.