143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:46]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir umræðuna. Heilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum velferðarkerfisins sem allir vilja hlúa að. Niðurskurður síðustu ára hefur gengið allt of langt. Víða eru heilbrigðisstofnanir komnar að þolmörkum eða jafnvel undir þolmörk. Ég held því fram að heilbrigðisfólk upp til hópa sé sannkallað hugsjónafólk því að ekki sinnir það vinnunni sinni launanna vegna. Takk fyrir mig og mína, kæra heilbrigðisstarfsfólk.

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni hefur átt undir högg að sækja og ekki síður en Landspítalinn. Að mínu mati eigum við efla heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og létta þar með álaginu af Landspítalanum. Ósamræmdar sumarlokanir um land allt gera álagið á Landspítalann hættulega mikið. Þessu verður að breyta.

Víða á landsbyggðinni er læknaskortur mikið vandamál og skýr stefna í sjúkraflutningum liggur enn ekki fyrir. Ég kalla því eftir henni. Aðstæður eins og t.d. í Vestmannaeyjum og á Hornafirði eru með þeim hætti að fjarlægðir eru miklar og stundum er algerlega ófært. Fólk er hreinlega lokað inni. Þess vegna verðum við að tryggja fullnægjandi heilbrigðisþjónustu á stöðum sem þessum þar sem fjarlægðir eru miklar og samgöngur oft erfiðar eða engar.

Ég vil einnig nota tækifærið og vekja athygli á verulega slæmri rekstrarstöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en samfélagið þar er mjög uggandi núna. Mikill niðurskurður hefur átt sér þar stað þar undanfarin ár eins og annars staðar. Það sem er að gerast núna, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra er væntanlega vel kunnugt um, er að tæplega 200 millj. kr. sem eru eyrnamerktar hjúkrunarrýmum færast frá Heilbrigðisstofnuninni til Nesvalla, hins nýja hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ. Þetta er mjög erfið staða og ég vona að fjárframlög náist inn í rekstur HSS svo hægt sé að halda þar uppi viðunandi þjónustu fyrir þetta stóra samfélag.

Að þessu sögðu vil ég ljúka máli mínu með því að leggja áherslu á að ríkisstjórn Íslands láti gera ítarlega þarfagreiningu á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Við verðum að vinna markvisst (Forseti hringir.) að þessu mikilvæga verkefni og tryggja öllum landsmönnum góða heilbrigðisþjónustu.