143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu um heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Við vitum öll að staðan í heilbrigðismálum er ekki góð, hvort sem litið er til Landspítalans eða heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Landspítalann hefur verið áberandi í umræðunni og er það skiljanlegt þar sem ástandið þar er ekki gott og við því þarf vissulega að bregðast.

Á landsbyggðinni eru heilbrigðisstofnanir sem hafa gengið í gegnum sameiningar og mikinn niðurskurð á undanförnum árum. Við erum með heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þar sem læknum hefur verið fækkað, t.d. úr tveimur niður í einn, og það segir sig sjálft að ef einn læknir er á heilbrigðisstofnun er gríðarlegt álag og einfaldlega mjög viðkvæmt ástand. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hægt sé að bregðast við þessari stöðu og koma til móts við byggðarlög þar sem eingöngu einn læknir er á vakt og minnka þar með álagið á þeim lækni er stendur vaktina.

Á stærri heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni þekkist sú staða að niðurfærsla hafi orðið á stöðugildum lækna og bakvöktum hafi fækkað og í einhverjum tilvikum hafa þær verið lagðar af. Þessi staða hefur áhrif á launakjör lækna og þær heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni sem hafa þurft að grípa til þessara ráðstafana eru ekki samkeppnishæfar varðandi launakjör og eiga í erfiðleikum með að fá lækna til starfa. Þeim bjóðast einfaldlega betri kjör annars staðar, jafnvel á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis. Ég hef einnig átt samtöl við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk á heilbrigðisstofnunum í kringum höfuðborgina. Þar eru tilbúnar skurðstofur og mjög svo færir læknar sem hafa reynslu í ýmsum aðgerðum og þar eru tómir gangar á heilbrigðisstofnunum sem hafa nægt rými fyrir sjúklinga.

Ég vil því að lokum spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ekki sé ráð að nýta þann mannauð sem til er og þessa aðstöðu og létta þar með álaginu af Landspítalanum.