143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

heilbrigðismál á landsbyggðinni.

[13:59]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræðuna sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið mjög málefnaleg. Sérstaklega þakka ég hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir síðustu ræðu sína þar sem hann þorir að koma inn á mjög viðkvæmt mál sem er fjölbreytt rekstrarform. Það er það sem við höfum verið að kalla eftir hér, við þurfum að ræða málin. Það er mjög mikilvægt að vera ekki feimin við það og taka staðreyndir upp á borðið. Það er mjög málefnalegt og nauðsynlegt.

Við höfum öll verið sammála um það hér í dag að það þarf að forgangsraða og efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að sú samstaða verði nýtt.

Hér hefur komið fram að við þurfum að breyta fjárlögunum. Þar er ég líka sammála, við þurfum að forgangsraða, en ég hef kallað eftir því í umræðunni að við þorum að taka umræðuna um það hvernig við ætlum að breyta fjárlögunum, ekki bara að tala um það sem þarf að bæta við. Hvar má taka af? Það er ekki endalaust hægt að auka álögur á atvinnulífið og íbúa þessa lands. Það er ekki hægt að auka bara útgjöldin, við verðum líka að þora að ákveða hvar megi taka af. Hvernig má forgangsraða? Ég kalla eftir þeirri umræðu nú eins og ég hef gert áður.

Ég fagna þeirri vinnu landlæknisembættisins sem farið hefur fram og lít á hana sem leiðarvísi að gerð heilbrigðisáætlunar eins og ég talaði um. Við þurfum að meta ástandið: Hvernig er staðan? Er einhver fita enn þá í kerfinu, eða ekki? Hvaða embætti þarf að leiðrétta, og annað slíkt? Þetta og fleira þurfum við að fá fram.

Ég geri mér grein fyrir því að við munum ekki hafa sjúkrahús alls staðar en eins og hér hefur komið fram skiptir starfsfólkið mestu máli. Við fáum starfsfólkið út á land með því að dreifa sérhæfingunni, misjafnri sérhæfingu á misjafna staði svo starfsfólkið hafi stuðning hvert af öðru. Ef markmiðið með sameiningu heilbrigðisembætta er að auka samlegðina og styrk þeirra get ég stutt þá sameiningu.

Þorum að fara nýjar leiðir og gerum áætlun í heilbrigðismálum.