143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Núverandi tékklistar, eins og hv. þingmaður orðaði það, verða áfram til staðar. Þetta breytir því ekki þannig að gert er ráð fyrir að þetta verði bara viðbót við það og enn einn liðurinn í að tryggja vandaða lagasetningu.

Hvað varðar umsögn frá þessum sex fulltrúum í regluráðinu og hvort ekki geti verið von á mikilli hagsmunagæslu þar ítreka ég það sem ég sagði í ræðu hér áðan að þó að hagsmunaaðilar fái að tilnefna þarna fulltrúa þá á að tilnefna fólk á faglegum grunni til að meta regluverkið. Það eru ekki bara atvinnurekendur sem munu tilnefna fulltrúa, launþegahreyfingin mun gera það líka. Þetta er því enn einn liðurinn í því að fá launþegahreyfinguna og atvinnurekendur, aðila vinnumarkaðarins meira að því að setja samfélaginu leikreglur í samstarfi við þingmenn.