143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

hagvaxtarhorfur.

[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi hagvöxtinn er ég ekki talsmaður þess að menn reyni að kýla hér upp hagvöxt, bóluhagvöxt, með einhverjum stórkarlalegum innspýtingum sem síðan hjaðnar eða kemur harkalega í bakið á okkur. Spurningin er hvað við getum gert til að stuðla að sjálfbærum og viðvarandi hagvexti. Þar held ég að ríkisstjórnin sé á rangri leið með því að draga úr fjárfestingum í innviðum, rannsóknar- og þróunarstarfi og nýsköpun o.s.frv.

Hagvöxturinn á þessu ári er þó borinn uppi af sæmilegum fyrri árshelmingi. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti að velta fyrir sér hverju sæti að hagvaxtarhorfurnar hafi daprast eftir því sem liðið hefur á árið og það er seinni árshelmingurinn, eftir að hæstv. fjármálaráðherra og félagar hans með alla sína snilld sem þeir boðuðu hér á síðasta kjörtímabili eru komnir til valda.

Varðandi fjáraukalagafrumvarpið er auðvitað afar óþægilegt fyrir fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og aðra að hafa ekki í höndunum svo seint sem 18. nóvember hvað er í vændum í fjáraukalagafrumvarpinu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Ég sé ekki annað en að vinnan hljóti meira og minna að stoppa (Forseti hringir.) og bíða eftir því að við sjáum á spilin hjá hæstv. ríkisstjórn.