143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

makrílkvóti á uppboðsmarkað.

[15:32]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum hefur makríllinn bókstaflega synt upp í fangið á okkur frá árinu 2010 og ætla má að nú hafi veiðst 500–600 tonn í íslenskri lögsögu. Makrílnum var úthlutað endurgjaldslaust af þáverandi ráðherra Jóni Bjarnasyni en lágmarksveiðileyfagjöld skiluðu sér þó til ríkisins. Mörgum hefur þótt lítið til þeirrar rentu koma en þó er einhver bót í máli að ríkisstjórnin hækkaði gjöldin á uppsjávarfisk á síðasta þingi, þótt ýmsir hefðu viljað sjá ríkissjóð bera meira úr býtum í þeim viðskiptum.

Saga veiðiheimilda og kvótasetningar í sjávarútvegi hefur mörgum þótt erfið og ósanngjörn í gegnum tíðina. Það getur verið erfitt að rekja upp og færa til betri vegar það sem gert var í fortíðinni. En þegar við ræðum um makrílinn erum við alveg frjáls, hér er komið einstakt tækifæri til að prófa sig áfram með sanngjarnara kerfi sem skilar eigendunum meiri arði.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir að hann ætli að setja makrílinn í kvótakerfið. Með því verði makrílkvóti framseljanlegur og gríðarlega verðmætur. Mig langar í því samhengi að benda á grein Jóns Steinssonar í Fréttablaðinu 16. nóvember þar sem hann segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Það að makríll eigi að fara inn í kvótakerfið þýðir hins vegar ekki að úthluta eigi þessum glænýja makrílkvóta án endurgjalds …“

Ég geri spurningu Jóns að minni: Hvað er það sem mælir gegn því að nýútgefinn makrílkvóti verði boðinn upp?