143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

makrílkvóti á uppboðsmarkað.

[15:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég lýsti í fyrra svari mínu var þetta niðurstaða þessa samráðshóps og í stjórnarsáttmálanum stendur að við ætlum að fara þessa leið. Vel má halda því fram að sýn manna á því hvaða leiðir eigi að fara sé mismunandi. Það er alveg klárt að núverandi ríkisstjórn ætlar að byggja áframhaldandi kerfi á aflahlutdeildarkerfinu. Það hefur sýnt sig hér á Íslandi að þótt kerfið sé vissulega ekki gallalaust þá er það hagkvæmt, hér er rekinn mjög arðbær sjávarútvegur. Þess vegna förum við þá leið.

Úr því að talið berst að nýrri tegund og öðru í þeim dúr er það alltaf þannig, og það hefur meðal annars komið fram í makrílveiðunum, að aðilar sem fóru ekki á veiðar — vegna þess að þeir töldu að það væri ekki arðbært, að það væri ekki skynsamlegt þótt þeir hefðu séð aðra vera að prófa — fóru ekki af stað fyrr en aðrir höfðu lagt út í þann kostnað, leitað uppi veiðarnar, þróa veiðarfærin. Þegar vel gekk hjá þeim komu fleiri í kjölfarið. Við þekkjum þetta öll, það hefur gerst margoft.

Talandi um veiðar smábáta síðustu þrjú árin — það voru örfáir sem fóru fyrst. Fæstir höfðu trú á að þetta væri hægt. Svo gekk mjög vel hjá ákveðnum aðilum fyrir einu ári og þá sóttu, held ég, um og yfir 200 um að fara í þessar veiðar í ár sem gengu reyndar ekki eins vel, hvorki hjá heildinni né einstökum aðilum, og í fyrra, meðal annars vegna veðurfars.

Það eru alltaf sömu rökin, það kostar að finna nýja stofna. Það kostar að finna og öðlast þá reynslu sem til þarf. Í því kerfi sem við höfum verið að byggja hér upp og móta á þessum 30 árum höfum við meðal annars tekið tillit til frumkvöðla, tekið tillit til veiðireynslu, verðmætasköpunar og annarra þátta þegar kemur að úthlutun. Þannig hyggst ég standa að þessu. Það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við vöndum okkur við verkið og það verði bæði unnið faglega og lagaleiðin verði farin til að tryggja að það verði gert með sem bestum hætti.