143. löggjafarþing — 23. fundur,  18. nóv. 2013.

tengivegir og einbreiðar brýr.

154. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Herra forseti. Samgöngumál á landsbyggðinni eru víða í ólestri. Of litlu fé hefur verið varið til viðhalds vega síðustu ár og það er farið að segja til sín. Viðhald á bundnu slitlagi endist í 7–10 ár í viðbót en á Suðausturlandi er það víða orðið 10–12 ára. Ríkið mun þurfa að leggja í gríðarlegan kostnað eftir nokkur ár ef viðhaldi verður ekki betur sinnt. Margir tengivegir í sveitum landsins eru illa farnir sem ógnar umferðaröryggi verulega. Þeir eru jafnvel ekki heflaðir reglulega. Börn sem búa í sveitum þurfa sum hver að sækja skóla um langan veg og þurfa þá að fara reglulega um mishættulega vegi í alls konar veðrum. Aukinn straumur ferðamanna skapar einnig álag á vegina og við því þarf að bregðast.

Ársþing Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi var haldið nýverið og í ályktun þingsins um samgöngumál kemur meðal annars fram að skynsamlegt sé að leggja áherslu á lagningu bundins slitlags á núverandi vegi með nauðsynlegum lagfæringum og spara þar með viðhald malarvega. Ég tek undir þetta sjónarmið. Í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu eru enn rúmlega 20 einbreiðar brýr á þjóðvegi 1 sem ég tel ekki boðlegt árið 2013. Í öðrum kjördæmum eru slíkar brýr sjaldséðar og heyra jafnvel sögunni til, sem er gott. Samkvæmt samgönguáætlun eru einbreiðar brýr ekki á áætlun fyrr en 2019–2022 en ég tel jafnvel mögulegt að flýta slíkum framkvæmdum ef við nálgumst þær út frá nýjum forsendum.

Mig langar til að skýra þessar hugmyndir aðeins betur. Staðan er þannig að stjórnvöld standa frammi fyrir gríðarlega víðtækri hagræðingu. Við þurfum því að vanda okkur, fara vel með fjármuni og forgangsraða þeim. Ég hef verið í sambandi við starfsfólk Vegagerðarinnar og rætt þessi mál. Fram kom meðal annars að menn telja hægt að breikka nokkrar brýr og jafnvel fjarlægja sumar og það muni því hugsanlega kosta minna en gert er ráð fyrir í núverandi samgönguáætlun. Kunnugir menn telja til dæmis mögulegt að setja ræsi undir Hólaá, Stigá í Öræfum og Reyðará í Lóni. Hvaldalsá kæmi einnig til greina. Sumar einbreiðar brýr eru steyptar og í góðu standi. Það mætti jafnvel skoða að steypa við þær, stál hefur hækkað mikið í verði þannig að steypa gæti verið hagkvæmari.

Sums staðar eru fyrirhugaðar breytingar á veglínu. Til dæmis þegar nýr vegur kemur um Hornafjarðarfljót detta þrjár brýr af listanum. Ég vil nota tækifærið hér og leggja áherslu á að núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót er stórvarasöm en samkvæmt samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við nýja brú yfir fljótið hefjist fyrr en árið 2018. Framkvæmdin er arðsöm og mun stytta hringveginn um 11 kílómetra og, ég endurtek, losa okkur við þrjár einbreiðar brýr á þessari leið.

Mér sýnist ég ekki hafa tíma til að bera upp þessar þrjár spurningar en hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) Hanna Birna kemur kannski að því.