143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í hvert sinn sem hæstv. ráðherra er spurður út í efnisatriði þessa máls þá nefnir hann að það séu svo mörg atriði sem þarf að fjalla um að eiginlega sé ekki hægt að telja upp neitt þeirra. Þess vegna langar mig að bera fram afmarkaða spurningu varðandi það sem hæstv. ráðherra kom inn á í erindi sínu hér áðan: Hvaða verkaskipting er óljós á milli ríkisstofnana innbyrðis og milli ríkisstofnana og sveitarfélaga? Og hvaða orðskýringar eru óljósar í frumvarpinu sem hæstv. ráðherra vill breyta?

Við getum bara látið þessar spurningar duga, ég veit að hæstv. ráðherra vill koma sér beint að efninu og ekki þurfa að fara um víðan völl. Ég get síðan bætt við fleiri spurningum í næstu umferð.