143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall sem á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég lýsti því yfir, bæði í heimsókn til nefndarinnar og einnig hér í framsögu, að ég hyggst eiga samráð við nefndina um þetta mál. Það voru fjölmörg atriði sem snertu bæði Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun, á fjölmörgum stöðum, þar sem verksvið þeirra var óljóst. Ég nefndi til að mynda innflutning á nýjum tegundum, þar sem virðist stefna í að óska þurfi eftir innflutningsleyfum undir fleiri en einum lögum, svo að dæmi sé tekið. Af því að hv. þingmaður spurði einnig um orðskilgreiningar, og tími minn líður nokkuð hratt, þá get ég nefnt dæmi um skilgreininguna „ræktað land“ af því að hún hefur beina afleiðingu — bara þessi eina orðskýring sem margsinnis var reynt að ræða hér síðasta vor:

„Land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi. Skóglendi (Forseti hringir.) telst ræktað land þangað til trén hafa náð þeim þroska að venjuleg umferð sakar ekki.“

Við þetta sköpuðust margar spurningar, það fengust engin svör. (Forseti hringir.) En afleiðingin af því að nota þetta (Forseti hringir.) orðalag „ræktað land“ kom (Forseti hringir.) því miður líka víðar fram (Forseti hringir.) í lögunum og er …