143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf leiðinlegt þegar maður lendir í því að vitnað er í það sem maður segir í öðru samhengi, en hæstv. ráðherra verður að búa við það. Það sem við blasir í þessari umræðu nú þegar er að hæstv. ráðherra hafði strax horn í síðu varúðarreglunnar, hafði það í raun við alla umræðu um náttúruvernd í þingsalnum, um rammaáætlun, um náttúruverndarlög, um stórt og smátt. Það var því djarft af nýrri ríkisstjórn að setja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson í sæti umhverfisráðherra þar sem hann hafði beitt sér ítrekað í orði og á borði gegn náttúruvernd. Hann hafði raunar talað um að umhverfisráðuneytið mætti leggja niður í þann mund sem hann settist á stól umhverfisráðherra.

Mig langar að spyrja: Hvernig sér ráðherrann fyrir sér að samráðinu verði háttað og þá vil ég sérstaklega nefna samráð við náttúruverndarsamtök?