143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef áður sagt í þessari umræðu þá er skynsamlegt að halda sig við það sem menn segja og skrifa og ekki reyna að klippa það út úr samhengi til að búa til einhverjar fyrirsagnir eins og stundum gerist í þessum þingsal og sumir kunna betur en aðrir og allt í lagi með það. (Gripið fram í.) Ég verð hins vegar að segja að ég undra mig svolítið á því ef sú afstaða á fyrst og fremst að móta hér umræðuna, málefnalega umræðu í þingsalnum, að einhver tiltekin persóna sitji sem umhverfisráðherra í einhverri ríkisstjórn, ef það er hin málefnalega umræða.

Það er rétt að ríkisstjórnin sem nú situr hyggst taka til hendinni og koma ýmsum málum í gegn. Koma hjólum atvinnulífsins í gang, bæta umhverfismál og það er stór kafli um það í stjórnarsáttmálanum og hefði verið áhugavert ef umræðan hefði snúist um það. (Forseti hringir.) Varðandi spurninguna vísa ég bara til framsögunnar þar sem kom fram að (Forseti hringir.) samráð verður haft við ólíka hópa, þingið og aðra.