143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég fjalla hér í nokkurri forundran um lög sem fella á úr gildi skömmu eftir að við fjölluðum um það mál hér í þinginu. Mig langar að spyrja hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um álit hennar á því hversu flókið það hefði verið að laga þessi álitaefni og hvort þingmaðurinn þekki til margra fordæma fyrir því að lög sem nýbúið er að fjalla um á þinginu séu felld úr gildi. Það náðist mjög víðtæk sátt um margt í þessum lögum. Það er ekki eins og ég hafi fylgst náið með umræðum hér um málið og það er ekki eins og það hafi verið blóðug átök um neitt nema um atriði sem ég hefði haldið að auðvelt væri að laga.

Mig langaði því að spyrja þingmanninn álit hennar á þeirri skoðun minni að það hefði verið nær að reyna að laga þetta. Eins og ég upplifi þetta þá er hér verið að setja mjög viðkvæman málaflokk í algjört uppnám. Það var búið að ná einhverjum grunni. Hvert er álit þingmannsins á því að verið sé að færa þennan málaflokk í þennan farveg?