143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um hið góða samstarf í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og ég á ekki von á öðru en að það haldi áfram að vera gott þannig að ég segi það strax. En hvað varðar afturhvarf, já, ég stend við þá sýn að ég telji þessa tillögu bera í sér afturhvarf til ársins 1999. Þó að lögin frá 1999 séu út frá hinum þrengsta skilningi laganna gildandi lög, og ég deili ekki um það, eru þau að sjálfsögðu barn síns tíma og með því að boða brottfall laganna sem eiga að taka gildi í apríl er að mínu mati í raun litið fram hjá allri þeirri vinnu sem hér hefur farið fram undanfarin ár sem miðaði að því að skapa nýjan lagaramma um náttúruvernd á Íslandi. Það er litið fram hjá allri þeirri vinnu og með því að halda sig við gildandi lög lít ég á það sem afturför í málaflokknum því að þá erum við að leggja allt hitt til hliðar sem unnið hefur verið.

Það eru skilaboðin, eins og ég reyndi að rökstyðja, að taka allan rammann til hliðar, allan rammann til endurskoðunar, með því að leggja til að fella brott nýju lögin í stað þess þá að gera á þeim einhverjar breytingar sem hæstv. ráðherra og meiri hluti Alþingis teldi nauðsynlegar og þá er það auðvitað ákveðið afturhvarf því að þá erum við að horfa fram hjá þeirri vinnu sem hefur verið unnin.

Hvað varðar orð hv. þingmanns um málþóf tel ég þessi mál, alveg eins og þau voru rædd mjög ítarlega á síðasta þingi, verðskulda að sjálfsögðu áfram ítarlega umræðu. Hv. þingmanni ætti að vera sú umræða í fersku minni.